138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[14:31]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi vil ég segja að þetta snýst ekki um það hvort við þorum eða þorum ekki að setja lög, þetta snýst alls ekki um það. Þetta er spurning um hvaða aðferðafræði við viljum beita í jafnréttisbaráttu.

Í annan stað man ég eftir þessari jafnréttislagasetningu og ég verð að segja alveg eins og er að mér þykir tveggja ára reynsla alls ekki nóg vegna þess að ég veit ekki til þess — hv. þm. Guðbjartur Hannesson getur kannski uppfrætt mig um hversu mörg fyrirtæki hafa t.d. verið beitt dagsektum. Hvað hafa þau úrræði sem við settum í þau lög, og við vorum misánægð með verð ég alveg að viðurkenna, leitt til mikillar aukningar á jafnrétti?

Ég hef ekki séð neina skýrslu með samantekt (Forseti hringir.) um það hvernig þessi nýju jafnréttislög hafa aukið hér jafnrétti og ég hefði (Forseti hringir.) talið að það þyrfti að koma áður en við færum að hnykkja á þessu.