143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

aðgengi fatlaðs fólks að kirkjum og safnaðarheimilum.

379. mál
[18:30]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Eins og ráðherra nefndi er ekkert nýtt að það sé verið að kanna þessi mál. Þessi skýrsla frá 1990 er orðin það gömul að ætla mætti að eitthvað hefði þokast. Í nýbyggðum kirkjum er hugað að þessum málum fyrir fram en það er ótækt að fólk sem vill til dæmis gifta sig eða skíra börnin sín í ákveðnum kirkjum þurfi frá að hverfa af því að aðbúnaður sé ekki fyrir hendi eins og þarna átti við, faðir brúðarinnar gat ekki leitt dóttur sína upp að altarinu. Það er mjög sorglegt.

Kannski er búið að gera nóg af úttektum. Kannski þarf að fara að taka aðeins fastar á málum. Ef til vill getur hæstv. ráðherra gert það með því að skilyrða fé til kirkjunnar, setja það á oddinn að þessi mál séu löguð. Oftast nær er frekar lítið mál að bæta þetta aðgengi, t.d. í kirkjum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta á ekki að vera það mikið mál og það er okkur til vansa að hafa ekki hlutina í lagi. Það þarf að gera gangskör að því.