144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[22:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hlýddi á þær umræður sem hér fóru fram og meðal annars þær hörðu áskoranir sem settar voru á hv. formann utanríkismálanefndar um að tjá sig. Ég vil nú ganga undir höggið fyrir hann. Ég þekki hv. þingmann að því að vera viti borin vera og að hugsa lógískt og skynsamlega og honum hefur alltaf tekist að tjá sína afstöðu, stundum á ská. Ég tel að þögn hv. formanns utanríkismálanefndar í kvöld tali miklu skærar en ýmsar ræður sem fluttar hafa verið hér, jafnvel af sjálfum mér. Ég tel að það sé í sjálfu sér mikill og skýr dómur yfir því frumvarpi sem hér er verið að ræða að hv. formaður utanríkismálanefndar kýs að sitja á þrumi í sæti sínu og þegja. Ég tel það honum ekki til lasts heldur hefur hann í þeirri erfiðu stöðu sem hann er gert okkur það algjörlega ljóst að það er mjög líklegt að það frumvarp sem við ræðum hér hafi ekki meirihlutafylgi. Það á eftir að koma í ljós hvort (Forseti hringir.) það hafi jafnvel stuðning í utanríkismálanefnd.