149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:24]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir óvænta spurningu. Ég veit að við þingmaðurinn erum sammála um það, og kappsfullir áhugamenn um það, að koma uppbyggingu á varaflugvöllunum í gott lag. Þessi tala sem hv. þingmaður nefndi, 7–8 milljarðar, er einmitt sú tala sem Isavia hefur líka verið að reikna með. Nýverið sá ég að forstjóri Isavia lét hafa eftir sér að það væri kannski um milljarður á ári í sjö ár til að koma þessu í þokkalegt lag.

Við erum með um 300 milljónir, í það minnsta, til þeirra hluta. Þannig að þá vantar kannski 700 milljónir. Í skýrslu hóps sem hv. þingmaður leiddi kom fram að til væru leiðir til að fjármagna þetta með því að færa verkefnin til Isavia þar sem þekkingin og reynslan er fyrir hendi og gott að koma ábyrgðinni á einn stað. Við höfum einmitt verið í viðræðum við Isavia um hvernig þetta geti orðið að veruleika, hvort þar komi þá til viðbótargjöld, svokallað varaflugvallargjald, eða hvort Isavia sæi fyrir sér aðrar leiðir í samstarfi við flugrekendur.

Því er ekki að leyna að þessir óvissutímar í fluginu hafa haft einhver áhrif á það. Þeir gætu líka þýtt að óvissa væri um hraðann á uppbyggingunni í Keflavík en við viljum hins vegar ekki að þessi aðgerð hafi truflandi áhrif á þá uppbyggingu sem er nauðsynleg þar. Þannig að svarið er: Já, við höfum hafið vinnu við að undirbúa þetta með samtölum við Isavia. Og ég er líka sammála hv. þingmanni um að tíminn líður hratt og því fyrr sem það liggur fyrir því betra.