149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:46]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Eins og kom fram í máli mínu erum við á þessu fjármálatímabili með um 120 milljarða til samgönguframkvæmda. Það er rétt að það eru líklega rúmir 17 milljarðar sem fara beint til framkvæmda og síðan 10 sem fara í viðhald, samkvæmt fyrri ákvörðunum, þannig að þetta eru líklega um 27 milljarðar á næsta ári og þarnæsta ári. Og svo fer það aðeins niður vegna þess að 5,5 milljarðar detta út.

Þetta er auðvitað til að fjármagna allar framkvæmdir samkvæmt samgönguáætlun. En eins og ég hef boðað kemur endurskoðuð fimm ára samgönguáætlun í haust þar sem við verðum búin að raða þessu upp á nýtt og þá líka vonandi búin að ganga frá hnútum og binda í samning samskipti ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu, bæði stofnbrautanna sem og borgarlínuverkefnanna og hjólreiðastíganna og annarra þeirra þátta.

Það er ekki þannig að tilteknir fjármunir séu eyrnamerktir til þeirra verkefna sem þarna eru, heldur er þetta til þess að fjármagna vegaframkvæmdir um allt land, þar með hér á höfuðborgarsvæðinu. En við þurfum auðvitað að sjá fyrir okkur heildarmyndina sem er annars vegar sú að við höfum lagt áherslu á að flýta verkefnum vegna umferðaröryggis á þessum hættulegu leiðum inn og út af höfuðborgarsvæðinu, Vesturlandsvegi, Suðurlandsvegi og Reykjanesbraut og á sama tíma að fara í þessar miklu framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu en um leið halda áfram að klára grunnnetið, taka á einbreiðum brúm hringinn í kringum landið. Það er ekki eins og verkefnin skorti. En það er hins vegar — og ég tek undir og þakka hv. þingmanni fyrir það — góð innspýting að koma sem mun svo sannarlega hjálpa okkur af stað í verkefninu.