149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:53]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Það eru auðvitað ekki bara 40 milljarðar sem við höfum til þessarar mála á næstu árum. 40 milljarðarnir eru viðbót sem ríkisstjórnin hefur verið að leggja ofan á, þ.e. bæði í fjármálaáætlun í fyrra, 16,5 milljarða, og síðan þessa 4 úr varasjóði og svo 20 milljarða núna til viðbótar sem eru einmitt teknir af eins konar sjóðstreymi vegna arðgreiðslna Landsvirkjunar m.a. og þeirra tekna sem ríkið hefur af eigum sínum. Við erum að taka þá fjármuni úr ríkissjóði í raun og veru. Þar af leiðandi hefur svo sem ekki staðið til að taka gjald af framkvæmdum sem ekki eru búnar, þ.e. í þessum flýtiframkvæmdum sem hér hefur verið um rætt. Við erum því ekki bara með 40 milljarða heldur erum við með um 120 milljarða á þessum fimm árum, þar af núna á næstu árum um 27 á ári, sem eru umtalsverðir fjármunir og verður vonandi hægt að gera fullt af hlutum með, þó að við notum um 10 milljarða á ári af þessum fjármunum í viðhald.

Svarið er einfaldlega að við ákváðum að forgangsraða meiri fjármunum í þágu uppbyggingar í samgöngum úr ríkissjóði. Hvort það verði í framtíðinni tekin gjöld fyrir einhverjum af þeim framkvæmdum til að standa undir næstu lotu flýtiframkvæmda er önnur umræða sem við þurfum ekki að taka í dag. Við þurfum að undirbúa það betur og taka kannski betri umræðu í þinginu, eins og ég hef nokkrum sinnum áður komið inn á, þannig að menn geri sér grein fyrir því að við munum ekki byggja allar þær samgöngubætur sem við þurfum að gera á loftinu einu. Þær kosta fjármuni og þá er spurningin hvaðan þeir fjármunir (Forseti hringir.) verða teknir. Ef hin hefðbundna gjaldtaka af bensín- og olíugjaldi, (Forseti hringir.) dísilgjaldi, lækkar um helming höfum við ekki mikla fjármuni til uppbyggingar á vegakerfinu í framtíðinni. En það er ekki vandamál í dag.