149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:54]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Já, ég nefndi að ég teldi fulla þörf á því að fara til þess verks að endurskoða fyrirkomulag þessarar pottaúthlutunar. Í tíð forvera míns var unnin ágætisúttekt á hugmyndum í því efni, þó að við höfum ekki komist til þess að fara af stað með þá vinnu sem ég tel að við þurfum að fara í, að rýna það plagg og þær hugmyndir og reyna þá að átta okkur á því með hvaða hætti við þurfum að taka á þessu.

Í mínum huga er ég ekki með neinn einn þátt þessara 5,3% undir frekar en annan. Maður sér bara það sem er að gerast t.d. varðandi línuívilnun. Þær heimildir sem þar eru hafa verið að dragast saman vegna þess að útgerðarhátturinn er að breytast. Menn eru ekki lengur í þessari landbeitningu sem var, þetta er meira komið bara í vélbeitningu o.s.frv.

Ég er ekkert að horfa til þess að við séum endilega að hækka eða lækka þessa potta, þessi 5,3%. Ég held að við þurfum fyrst að reyna að gera upp við okkur hvernig þetta hafi komið út, hvaða áherslur við viljum setja í öndvegi, vegna þess að meginmarkmið okkar hlýtur að vera tvennt, annars vegar að gera sem mest verðmæti úr þeim heimildum sem þarna undir liggja og í öðru lagi með hvaða hætti við getum nýtt þetta sem best í þeim félagslega tilgangi sem þessum hluta er ætlað að sinna.

Gjaldtakan í fiskeldinu er hugsuð á þann veg að við ætlum að koma henni á og svo í fyrstunni verður hún bara tengd fjárlagavinnunni, hvernig henni verður ráðstafað, og fer þá í gang núna í sumar. Ég hef séð fyrir mér að fyrst af öllu standi þetta gjald undir kostnaði við eftirlit og vöktun og síðan rannsóknum á ferli villta laxins í hafi, sem (Forseti hringir.) eru litlar sem engar. Þannig að þetta gjald fer til að byrja með til þessara þátta að minni hyggju.