150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[17:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hv. þingmaður áttum samtal fyrr í dag um þá hópa sem eru kannski í viðkvæmari stöðu alla jafna og sérstaklega við þær erfiðu aðstæður sem eru uppi. Ég ætla ekki að fara í þá umræðu aftur en ég vil hins vegar halda þeirri hefð sem ég hef haft hér í dag og þakka nefndarmönnum fyrir mjög góða vinnu, góða samstöðu og gott innlegg í alla umræðu um þær fjölmörgu tillögur sem eru til umfjöllunar hér í dag en við náum auðvitað ekki utan um þær allar. Ég vona að virðulegur forseti virði það við mig að þakka fyrir þetta.

Ég átta mig á því í þessari umræðu þegar við erum með jákvæðan vilja og jákvætt hugarfar að það er jafnvel erfitt fyrir stjórnmálamenn að vera í þeirri stöðu. Sumir hafa komið inn á það að það sé jafnvel skjall. Ég held hins vegar að þjóðin þurfi einmitt á því hugarfari að halda við þessar kringumstæður, öll þjóðin, og ekki síst hér á þingi. Samstaða þýðir ekki að allir séu sammála. Það speglaðist mjög vel í nefndarstarfinu, bæði í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd. Ég met það svo að það sé mjög góður bragur á því sem hefur verið í umræðunni í dag, að þrátt fyrir að hér sé ekki nóg að gert, við getum deilt um það, sé þetta mjög mikilvægt skref. Það er beðið eftir þessum aðgerðum, þær eru miklar að umfangi. Við getum beitt einhverjum mælikvörðum í því en fyrst og fremst skiptir máli að við sameinumst um að það sem er gert gangi upp í þessu skrefi. Það er kannski mikilvægast og er kannski sú samstaða sem endurspeglast í umræðunni í dag.