Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[17:31]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Allt þetta tal, þetta eru allt saman lágmarksaðgerðir. Það er ekkert frumkvæði af okkar hálfu sem við sýnum, ekki neitt. Þetta eru lágmarksaðgerðir, þetta er lágmarksviðbragð. Og þó það nú væri að við myndum lýsa yfir stuðningi hvort sem það er við Úkraínu eða öflugt tal á alþjóðavettvangi, þó það nú væri, verandi stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu. Það sem ég furða mig á er að ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokkinn innanborðs hefur ekki treyst sér til að greiða atkvæði með tillögu um það hvort það eigi að móta hér varnarstefnu eða ekki og það á þessum tímum, á þessum örlagaríku tímum. Ég hefði vel skilið það ef við hefðum komið með þessa tillögu fyrir tveimur, þremur árum, en á þessum tímum bara skil ég ekki að Sjálfstæðisflokkurinn skuli bregðast svona við.

Það er algjört lykilatriði að mínu mati að við höldum áfram að efla þátttöku okkar í NATO. Við höfum stigið ágætisskref í því en við þurfum að gera meira. Við þurfum líka að vita, hvað sem hver segir og þá bara óska ég eftir fundi í utanríkismálanefnd því að þetta hefur alls ekki verið skýrt þegar að þessu hefur verið spurt, hvernig gangverkið er ef til einhverra átaka eða einhverrar hættu kemur hér á norðurslóðum í kringum Ísland. Það voru ekki skýr svör um það og hafa ekki verið innan nefndarinnar þegar utanríkisráðuneytið hefur komið og þessar spurningar hafa verið settar fram. Það vekur upp ákveðnar áhyggjur að þetta sé ekki alveg á hreinu.

Í heildina skiptir máli, þannig að maður reyni að enda þetta gagnvart ráðherra á einhverjum jákvæðum nótum, að ráðherra er að nýta sér það á erlendri grundu að vera í ríkisstjórn sem er ekki fjölskipað stjórnvald. Mér finnst það mjög mikilvægt og ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að nýta sér það vald sem í því felst. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)