154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

kerfi til að skrá beitingu nauðungar.

709. mál
[17:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka fyrir hér fyrirspurn sem snýr að atvikaskráningu og beitingu nauðungar, þetta hangir saman. Ég vil jafnframt þakka athugasemdir sem hafa komið hér fram. Nú get ég ekki fullyrt hver nákvæmlega er að vinna að hugbúnaðarlausninni sem leysir málið en það er í umsjá embættis landlæknis. Ég vil líka þakka hv. þm. Evu Sjöfn Helgadóttur og tek undir að það er mikilvægt að slíkt skráningarkerfi veiti okkur upplýsingar um gæði þjónustunnar þannig að við getum fylgst með því hvað við erum að gera og hvernig þjónustan reynist fyrir fólkið okkar. Ég nefndi hér endurkomutíðni og almennar upplýsingar um hana, það er mjög mikilvægt.

Hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir svaraði raunverulega spurningunni sjálf hér, um af hverju þetta tekur svona langan tíma. Kannski er það fulldjúpt í árinni tekið af þeim sem hér stendur. En markmið frumvarpsins er einmitt að gera breytingar á lögum um réttindi sjúklinga sem fela í sér að lögfesta meginreglur um bann við beitingu nauðungar nema í undantekningartilvikum í samræmi við lögin. Þetta samráð, þessi sátt sem við erum að leita eftir með notendum, ég þuldi upp þá fulltrúa sem hafa gefið þessu mjög mikinn gaum og lagt mikinn tíma og alúð í vinnu við frumvarpið ásamt þeim sem eru að sinna þjónustunni, hefur bara tekið mikinn tíma og hefur farið á milli og inn í samráð. Að mínu viti hefur frumvarpið tekið miklum framförum frá því sem það leit út fyrst. Þetta er meginmarkmiðið en það kostar að ná sátt um það, þetta er fín lína.