139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

störf þingsins.

[14:14]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við höfum á undanförnum dögum rætt heilmikið um eldsneytisverðið og hvernig það hefur verið að þróast og hækka upp á síðkastið. Mig langar að ræða einn afmarkaðan þátt þess máls við hv. þm. Sigmund Erni Rúnarsson, varaformann samgöngunefndar, og það er sá þáttur sem snýr að flutningskostnaðinum.

Ég tók þetta mál upp í fyrirspurnarformi á mánudaginn var þar sem hæstv. fjármálaráðherra var til andsvara. Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á eftirfarandi: Við vitum að skattlagningin á eldsneytinu er að langmestu leyti krónutöluskattlagning en á því er veigamikil undantekning. Þar á ég við virðisaukaskattinn sem leggst þá ofan á eldsneytisverðið og verður að öllu óbreyttu þeim mun hærri sem eldsneytisverðið verður hærra.

Ég aflaði mér upplýsinga um þetta mál og þá kemur á daginn að miðað við meðalmagn af seldu eldsneyti á ökutæki munu virðisaukaskattstekjur ríkissjóðs af eldsneyti aukast um rúmlega 2 milljarða kr. haldist núverandi útsöluverð óbreytt samanborið við útsöluverðið fyrir ári, þ.e. í febrúar 2010. Til samanburðar er tekjuaukningin tæplega 6 milljarðar kr. ef við berum saman útsöluverðið eins og það var í febrúar 2009. Ef við skoðum þetta sérstaklega, virðisaukaskattinn sem hlutfall af seldum lítra, þá er virðisaukaskatturinn að meðaltali, jafnt á olíu og bensín, núna 46,50 kr. Hann var 40 kr. í fyrra, 30 kr. fyrir tveimur árum, hefur sem sagt hækkað um 50% á tveimur árum.

Hæstv. fjármálaráðherra opnaði á það að nota það svigrúm sem þarna væri að gefast til að lækka flutningskostnað á landsbyggðinni. Við vitum að flutningskostnaðurinn er að verða mjög háskalegur úti á landi. Hann er farinn að valda því að fyrirtæki eru að leggja upp laupana, þau lenda í erfiðleikum, samkeppnisstaða þeirra raskast (Forseti hringir.) og afleiðingin verður sú að það ýtir undir fólksflóttann af landsbyggðinni. Ég vil spyrja hv. varaformann samgöngunefndar um þessi mál.