140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:20]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tala fyrir aðra þingmenn stjórnarflokkanna en sjálfan mig. Ég mun ekki styðja þetta mál að því er varðar niðurlagningu efnahags- og viðskiptaráðuneytisins. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, að þegar verið er að taka ákvarðanir um breytingar á Stjórnarráðinu tæpu ári fyrir alþingiskosningar ber stjórnvöldum, að mínu viti, sú lýðræðislega skylda gagnvart Alþingi og gagnvart því starfsfólki sem vinnur í stjórnsýslunni, að hrófla ekki til einhverju án þess að um það sé umtalsverð samstaða.

Ég held að ef við horfum á atvinnuvegaráðuneytið og umhverfisráðuneytið þá sé um að ræða mjög ítarlega og vel hugsaða breytingu sem hefur verið greind margsinnis og rædd og útfærð í áratugi. Hér er hins vegar unnið með allt öðrum hætti, hlaupið til og grundvallaratriðum hagstjórnar breytt án þess að útfært sé með nokkrum hætti hvernig eigi að vinna það og án þess að greina kostnað sem þetta hafi í för með sér eða hvaða bættum árangri eigi að ná með breytingunni.