140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Í sjálfu sér er það fagnaðarefni ef við fáum tækifæri til að ræða þessar breytingar á Alþingi vegna þess að miðað við upphaflega áætlun ríkisstjórnarinnar var ekki meiningin að Alþingi fengi nokkuð um það að segja hvernig ráðuneytum yrði skipað eða hafa skoðun á því þegar til stæði að breyta þeim.

Jafnframt er hægt að taka undir þau markmið sem koma fram varðandi þessar tillögur. Markmið breytinganna er að gera Stjórnarráðið öflugra og skilvirkara og skerpa betur og skýra verkaskiptingu á milli ráðuneyta. Þetta hlýtur að vera atriði sem við öll hér innan dyra og allir áhugamenn um stjórnsýsluna geta tekið undir. Það er ágætt að menn átti sig á þessu.

Hins vegar skorti talsvert upp á rökstuðning varðandi þær ákvarðanir sem ætlunin er að taka. Meðal annars kemur fram að þessar breytingar eigi að tryggja „skýrari stöðu auðlindamála í samræmi við breytingar á samfélaginu“. Síðan tekur maður til við lesturinn og les þingsályktunartillöguna. Ég finn þess einfaldlega hvergi stað, herra forseti, hvernig staða auðlindamála á að vera skýrari með þessu móti, ég skil einfaldlega ekkert í því hver staða auðlindamála verður eftir þessa breytingu. Það eru talsverð vonbrigði að ekki sé betur útskýrt fyrir okkur í þessu þunna plaggi hvernig þetta á allt saman að vera. Miklar breytingar eru fram undan sem eiga að leiða til skýrari stjórnsýslu og þess vegna er fullt efni til að rökstyðja það ítarlega. Það hlýtur að hafa verið farið gaumgæfilega yfir það í ráðuneytinu og ráðuneytunum með hvaða hætti þetta þjóni markmiðum tillögunnar. Þetta er það fyrsta sem grípur augað.

Þá fjalla ég í stuttu máli um það sem vísað er til varðandi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Það kemur hér fram að draga megi þann lærdóm af skýrslu rannsóknarnefndarinnar að þörf sé á að efla ráðuneytin. Það er rétt, einn af þeim lykilþáttum sem rannsóknarnefndin lagði til var að efla þyrfti ráðuneytin. Ég held að okkur sé öllum kunnugt um það að ráðuneytin voru og eru veik, stjórnsýslan hefur verið mannfá og verkefnin eru sífellt að aukast, sérstaklega þegar við erum alltaf að lögfesta fleiri og fleiri tilskipanir og boðanir frá Evrópusambandinu. Það er því rétt að þessi gagnrýni hefur komið fram og er réttmæt.

Ein leiðin að því marki sem talið er að geti eflt ráðuneytin er að stækka þau með sameiningu líkt og lagt er til hér. Það er auðvitað rétt. Það gæti verið leiðin. Hins vegar er alveg ljóst að ef taka á tillit til þeirra athugasemda og ná árangri í að koma til móts við það sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis bendir okkur á þá er alveg ljóst að jafnframt þarf að efla ráðuneytin varðandi mannauð, þ.e. það þarf að fjölga starfsmönnum stjórnsýslunnar verulega ef koma á til móts við þær athugasemdir sem birtast okkur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Með því einu að sameina ráðuneyti næst ekki að verða við þeim ábendingum sem birtast okkur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Það er mikil einföldum að halda því fram.

Svo er alveg rétt að það mun taka sinn tíma að ná fram einhverri breytingum þegar verið er að sameina ráðuneyti líkt og hér er lagt til. Ef einhver árangur verður í þá átt að koma til móts við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis mun hann ekki birtast okkur á næstu árum. Hér er örstutt tæpt á því hver reynslan af nýafstaðinni sameiningu ráðuneyta hafi verið og vísað til skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það hefði verið til bóta ef sú skýrsla hefði einfaldlega fylgt þessu plaggi þannig að álit Ríkisendurskoðunar á þeim breytingum lægi fyrir með þingmálinu, enda er ljóst að svo stutt er síðan þær sameiningar áttu sér stað að ekki eru komnar neinar marktækar niðurstöður á því hvernig til hefur tekist.

Það er ljóst að ráðuneytin verða misstór eftir fyrirhugaða sameiningu. Ég hefði haldið svona fyrir fram að þegar farið er í slíkar breytingar, fyrst verið er að fækka ráðuneytum, að reynt yrði að hafa einingarnar tiltölulega jafnstórar, þ.e. að reynt yrði að sameina málaflokka þannig að þeir væru bæði viðráðanlegir og að jafnvægi væri milli ráðuneyta. Ég get ekki séð af lestri tillögunnar að svo verði, en ég get varla mótað mér skoðun á því þegar rökstuðningurinn liggur ekki fyrir.

Ég vísa aftur til þess litla sem kemur hér fram varðandi umhverfisráðuneytið. Fram kemur að ráðgert sé að efla umhverfisráðuneytið og breyta nafni þess í umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Það er stóra breytingin sem sérstaklega er dregin fram í 3. lið þessarar þingsályktunartillögu.

Í fyrsta lagi mun hlutverk þessa nýja umhverfis- og auðlindaráðuneytis vera að „hlutast til um mótun og eftir atvikum lögfestingu meginreglna umhverfisréttarins og skilgreiningu þeirra viðmiða sem gilda eiga um sjálfbæra nýtingu“. Það er svo sem ágætt, en það er Alþingi sem fer með löggjafarvaldið. Ég sé ekki hversu fyrirferðarmikið þetta verkefni verður á næstu árum en ráðuneytið hlýtur að eiga að standa um einhvern tíma.

Í öðru lagi er hér tekið fram að „samstarf ráðherra verði formgert“, það hlýtur að eiga við um umhverfis- og auðlindaráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Þetta samstarf á að ganga út á það að móta reglur sem nauðsynlegar eru til að markmið um sjálfbæra nýtingu nái fram að ganga. Tveir ráðherrar eiga að vinna saman að þessu markmiði. Einhver hefði spurt: Af hverju er ekki bara eitt og sama ráðuneyti í staðinn fyrir að hafa þessa tvo aðila?

Í þriðja lagi verði „mælt fyrir um fastmótaðan og lögbundinn farveg sameiginlegrar vinnu ráðuneytanna við undirbúning ákvarðana um nýtingu“.

Verkefni og hlutverk umhverfisráðuneytisins verður í fyrsta lagi að lögfesta meginreglur umhverfisréttarins sem er að sjálfsögðu Alþingis að gera. Ég tel að það sé ekki margra ára verk fyrir ráðuneyti að undirbúa slíka löggjöf, það þarf alla vega ekki að búa til sérstakt ráðuneyti til að sinna því hlutverki. Síðan, í öðru og þriðja lagi, á ráðuneytið að vera í samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Er þetta ekki frekar rýrt, herra forseti? Er þetta efni í sérstakt ráðuneyti? Ef svo er tel ég að það hefði að minnsta kosti þurft að útskýra það og rökstyðja á einhvern hátt í þessu plaggi svo að ég geti skilið hvað átt er við.

Svo er gert ráð fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Það skýrir aðeins fyrir mér hvað verður ekki í umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Þá fækkar enn þeim möguleikum sem ég get ímyndað mér að eigi að vera þar. Ég tel að þetta ráðuneyti verði heldur rýrt.

Herra forseti. Mig langar að taka undir þær ábendingar sem hv. þm. Pétur H. Blöndal kom með í ræðu sinni áðan. Hann benti á hið augljósa, að álit fjármálaráðuneytisins á þessari þingsályktunartillögu liggur ekki fyrir enda er það ekki skylt samkvæmt þingsköpum, en ég tel alveg skoðandi að setja slíkan áskilnað inn. Það mundi vissulega skýra fyrir manni hvernig fjármagnið ætti að raðast og hvaða útgjaldaauki eða eftir atvikum sparnaður væri áætlaður í kjölfarið. Eins og ég skil tillöguna á það að vera eitt af markmiðunum þótt það komi ekki skýrt fram. Það hefði verið til bóta ef eitthvað hefði komið fram um það. Ég tek því undir ábendingar hv. þm. Péturs H. Blöndals og legg til að við skoðum það í þinginu hvort við eigum ekki að bæta því við.

Um þetta allt er síðan það að segja að vissulega viljum við öll hafa hér öfluga og skilvirka stjórnsýslu. Það er mikilvægt að ráðuneytin séu faglega sterk og nái að sinna þeim umfangsmiklu verkefnum sem þeim eru falin, en við getum ekki sagt að í þessari tillögu sé verið að koma til móts við og uppfylla væntingar tengdar þeim ábendingum sem birtast í (Forseti hringir.) skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Með engu er það rökstutt í þessu plaggi.