149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:44]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Mig langar til að byrja á að fagna innspýtingu í vegaframkvæmdir sem er að finna í þessari fjármálaáætlun og láta liggja á milli hluta í umræðunni hér á hversu traustum grunni sú aukning hvílir. Það verða aðrir til að ræða það.

Ég ætla í fyrri umferð að beina sjónum að mögulegum vegtollum, margræddum. Ég velti fyrir mér aukningunni í þessari fjármálaáætlun sem hljóðar upp á rúma 17 milljarða. Það er verið að tala um þetta til fjárfestingar, og nú vísa ég í töflu í áliti meiri hlutans við samgönguáætlun frá því fyrr á þessu ári um vegaframkvæmdir sem hægt væri að fjármagna með gjaldtöku og það er upp á eina 57 milljarða. Það var enginn ágreiningur í sjálfu sér um að þetta væru allt mjög mikilvægar framkvæmdir.

Spurningin er: Sér ráðherra fyrir sér að þessir 17 milljarðar komi til frádráttar þessari upphæð og þá standi eftir framkvæmdir upp á 40 milljarða sem síðan verði fjármagnaðar með vegtollum, ef vill, eða hvernig sem það er, í samræmi við væntanlegt frumvarp ráðherra? Eða er ekki búið að ákveða hvert þessir 17 milljarðar fara, í hvaða nýframkvæmdir? Það er fyrri spurningin í fyrri umferð.

Á tengdum nótum er það höfuðborgarpakkinn svokallaði. Í fyrsta lagi langar mig að fá það alveg á hreint hjá ráðherra því að ég er aðeins óörugg um hvað það þýði að hann samanstandi af borgarlínu, hjólastígum og síðan framkvæmdum á stofnvegum höfuðborgarsvæðisins. Eru það nokkuð stofnleiðir til og frá höfuðborgarsvæðinu? Eru það stofnleiðir innan höfuðborgarsvæðisins? Mig langar til að fá það alveg skýrt.

Að lokum velti ég fyrir mér þessari setningu í áætluninni:

„Til skoðunar er að stofna þróunarfélag (Forseti hringir.) um tilteknar eignir ríkisins sem kæmi að fjármögnun höfuðborgapakkans.“

Það er væntanlega verið að tala um sölu ríkiseigna. Er búið að ákveða af hálfu ríkisstjórnar hvaða eignir það eru? Og ef svo er, væri hæstv. ráðherra til í að deila þeim upplýsingum með okkur?