150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[12:17]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi sveitarfélögin veit ég og hv. þingmaður veit það líka, því að fulltrúar þeirra komu til okkar í nefndinni og fóru yfir óskir sínar, að þar á bæ hafa menn eðlilega áhyggjur af tekjustofnunum. Við setjum heilmiklar kröfur á sveitarfélög. Við hvetjum þau til að fara í alls konar framkvæmdir og viðhald en við segjum ekki skýrt að þau fái líka endurgreiðslu á virðisaukaskattinum. Ég er hrædd um að við þurfum að fara yfir öll þessi atriði.

Námsmenn munu auðvitað leita til sveitarfélaganna en það er ekki bara það. Ég kem af svæði þar sem atvinnuleysi er nú þegar orðið tæplega 14% og meira en það í Reykjanesbæ. Þar var atvinnuleysi komið í 9% í janúar þannig að margir munu (Forseti hringir.) lenda á strípuðum atvinnuleysisbótum sem eru rétt 290.000 kr. Sveitarfélögin munu þurfa að veita félagslega þjónustu hvað þetta varðar. Hún mun aukast og þess vegna þurfum við að horfa sérstaklega á stöðu sveitarfélaganna.