Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[17:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þessa góðu skýrslu sem við ræðum, uppsetningin og brotið alveg ægilega fínt allt saman. En inntakið er ágætt og þetta er gott yfirlit og góð yfirsýn yfir það sem utanríkisþjónustan er að gera. Ég vil almennt hrósa fólkinu sem við í utanríkismálanefnd þurfum að hafa mikil samskipti við, fólkinu sem vinnur í ráðuneytinu en líka ráðherra fyrir almennt séð alveg prýðileg samskipti og það hefur verið bætt í að mínu mati nema kannski varðandi eitt atriði sem við vorum ekki nægilega vel upplýst um og það var varðandi leiðtogafund NATO í Madríd á síðastliðnu sumri þegar nefndin var ekki nægilega upplýst um að það ætti að fara að undirstrika grunnstefnuna og breyta henni. Á hinn bóginn, eins og ég segi, hafa samskiptin verið mjög góð og ég man ekki eftir því í síðari tíma að ráðherrar svari jafn vel og einlægt og þessi hæstv. utanríkisráðherra.

En það er kannski nóg af hjali og hrósi í bili því að við stöndum núna frammi fyrir alvarlegustu stríðsátökum síðari tíma. Þá hljótum við að spyrja: Kemur ekki fram í svona skýrslu nákvæmlega endurspeglun á þessum alvarlegu stríðsátökum? Það gerir það að vissu leyti, dregur fram alvarleikann í þessu mikla innrásarstríði Rússa sem hefur leitt til þess m.a. að Pútín er nú eftirlýstur sem stríðsglæpamaður, kemur ekki á óvart, en það ætti heldur ekki að koma á óvart að mín gagnrýni, m.a. varðandi utanríkisstefnuna, felist í því að vera með ákveðna feimni, ákveðinn feluleik sem er aldrei góður þegar kemur að utanríkisstefnu, sér í lagi utanríkisstefnu sem á að snerta varnar- og öryggismál.

Mér finnst utanríkisráðherra hafa staðið sig prýðilega á erlendum vettvangi, eins og hæstv. forsætisráðherra, staðið vaktina ágætlega á erlendum vettvangi, en það verður ekki sagt annað þegar heim er komið og það á að standa fyrir nákvæmlega það sem grunnstefna Atlantshafsbandalagsins segir til um að þá verður þetta svolítið snúnara fyrir ríkisstjórnina. Það kemur engum á óvart þegar samsetningin á ríkisstjórninni er eins og hún er.

Ég ætla að fara í þjóðaröryggisstefnuna sem var samþykkt, fara stuttlega yfir hana, og það kemur engum á óvart, m.a. í andsvörum frá hv. þm. Loga Einarssyni hér áðan gagnvart þingmönnum frá Vinstri grænum sem gátu ekki einu sinni stutt sjálfsákvörðunarrétt Svía og Finna til þess að ganga í NATO — mér fannst það alveg með eindæmum og mér finnst að það endurspegli svolítið í hvaða stöðu við erum í utanríkismálum, í varnarmálum ekki síst, með svona samsetta ríkisstjórn eins og hún er núna og á þessum örlagaríku tímum. Ef við skoðum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, förum m.a. yfir formálann, er ekki minnst á utanríkis- og varnarmál og heldur ekki í stefnuyfirlýsingunni inni í stjórnarsáttmálanum. NATO er hvergi nefnt. Það er vísað í þjóðaröryggisstefnuna en NATO er hvergi nefnt. Þetta er ekki plagg sem er sérstaklega mikið hald á þeim tímum sem við lifum í dag. Spurning hv. þingmanns, um hvort það væri ekki hræsni hjá þingmönnum Vinstri grænna að styðja ekki umsóknir Svía og Finna, var því miklu meira en gild, hún var mikilvæg og það þarf að draga fram þennan tvískinnungshátt sem einkennir bakland ríkisstjórnarflokkanna.

Varðandi þjóðaröryggisstefnuna: Ég hef skynjað það að Sjálfstæðismenn, margir hverjir, eru ekkert endilega mjög sáttir við þá leið sem farin var en hún er samt þessi þjóðaröryggisstefna sem við erum með í dag og var samþykkt hér á dögunum. Hún er, eins og fram hefur komið, ákveðin uppfærsla, þokkaleg uppfærsla, á gömlu stefnunni og ágæt almannavarnaáætlun eins og margir hafa bent á, en það vantar þungamiðjuna sem allar aðrar þjóðir hafa verið að taka til sín og það er hvernig við ætlum á stríðstímum að styrkja stefnu okkar í varnar- og öryggismálum. Það hafa margir aðrir hér á undan mér flutt fínar ræður og dregið það fram að ekki bara Svíar og Finnar hafa verið að endurskoða sína stefnu með því að sækja um í NATO, heldur hafa Danir uppfært sig, haldið þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að vera fullir þátttakendur í varnarhluta Evrópusambandsins. Við erum að sjá Þjóðverja stíga söguleg skref af því það eru sögulegir tímar. Þeir eru að miðla hergögnum, þeir eru af fullum þunga að taka þátt í aðstoð NATO og ESB við Úkraínu þannig að allar aðrar ríkisstjórnir — mér finnst við eiga að standa undir miklu meiri ábyrgð, sem stofnaðilar Atlantshafsbandalagsins eigum við að vera með burðugri stefnu og nálgun en í rauninni er. Eitt er það sem er sagt í útlöndum. Það er fínt. Þar er talað skýrt. Þar er ég stolt af hæstv. utanríkisráðherra. En þegar heim er komið finnst mér sárt að sjá að ríkisstjórnin getur ekki sett fram þessa varnarstefnu með almennilegum hætti, varnarstefnu sem tekur m.a. á því hvort við eigum að hafa mannafla hér, her til einhvers tíma, viðvarandi veru, 200, 300, 400, 500 manna her sem m.a. ver þær flugvélar sem hér koma hverju sinni í tengslum við loftrýmisgæsluna. Þetta mat hefur ekki farið fram af því það er þessi feimnisleikur, þessi feluleikur, sem er af því að forystuflokknum í ríkisstjórn má ekki líða sérstaklega illa út af þessu. Fyrir vikið líður Ísland fyrir að vera ekki með skarpari og skýrari stefnu á þessum tímum.

Ég man að strax eftir að innrás Rússa í Úkraínu fór af stað þá varð líka meiri umræða um Evrópusambandið. Margir and-Evrópusinnar, sem eru m.a. innan stjórnarflokkanna, fóru að segja: Já, gat nú verið að þið færuð að tala um Evrópusambandið núna. Svo núna þegar allt er í steik í verðlagsmálum hér heima, vextir og verðbólga er í hæstu hæðum, þá má heldur ekki tala um evruna. Það má bara aldrei tala um Evrópusambandið eða evruna á neinum tímum. Ég vil hvetja þau sem hér eru inni til þess, í staðinn fyrir að taka upp nokkuð óbeislaðan málflutning frá Brexit-sinnum, að breyttu breytanda, einfaldlega að stíga það skref sem ég tel farsælast á þessu stigi og stuðla að því að þjóðin fái að taka afstöðu til þess hvort við eigum að halda áfram með viðræðurnar við Evrópusambandið. Hættulegra er það nú ekki og það myndi leiða af sér að umræðan yrði dýpri og meiri.

Við sjáum þetta fum og fát varðandi varnar- og öryggisstefnuna. Það er út af andstöðu Vinstri grænna við NATO. Höfum það hugfast að norrænt samstarf er lykilþáttur, en grundvallarþáttur okkar utanríkisstefnu er tvíþættur. Það er annars vegar aðildin að NATO og hins vegar þátttakan í EES-samstarfinu. Þar eru þungavigtarpunktarnir. En við erum með andstöðu innan ríkisstjórnar gagnvart NATO, það er VG, og við erum að skynja meiri og meiri andstöðu innan Sjálfstæðisflokksins og innan Framsóknarflokksins, sem hefur aðeins verið að aukast núna á síðustu árum, gagnvart EES-samstarfinu, lát vera ESB. Við finnum að það eru að koma harðari tónar gagnvart EES-samstarfinu, því mikilvæga alþjóðasamstarfi. Þessir tónar eru klappaðir upp, m.a. af Miðflokki og Flokki fólksins. Við erum að sjá þetta birtast þó að það séu aðrir innan Sjálfstæðisflokksins, m.a. ráðherra, sem standa dyggan vörð um EES-samstarfið. En á meðan, og þetta er nákvæmlega það, ekki er talað skýrt, meðan það er þessi feimni og þessi feluleikur í stjórnarsáttmála sem þorir ekki að segja almennilega að við eigum að vera fullgildir aðilar að NATO og við eigum að taka fullan þátt í því samstarfi, þá sendir það þá tóna að fólk eigi kannski ekkert endilega að vera að einblína á þessa þætti.

Já, það ætti engum að koma á óvart að ég ætla að minnast á Evrópusambandið. Það hafa nokkrar ræður verið fluttar hér af stjórnarþingmönnum sem hafa verið að reyna að sannfæra mig, ég veit ekki hverja aðra þeir eru að reyna að sannfæra, um að ESB hafi bara engu varnarhlutverki að gegna, aðildin að NATO sé alveg nóg. Svíar og Finnar eru að svara þessu með öðrum hætti. Þeir vilja vera báðum megin af því frá því að innrásin í Úkraínu hófst þá hefur samstarfið á milli NATO og Evrópusambandsins á grundvelli varna og öryggis dýpkað. Það hafa verið gerðir samningar, skrifað undir samkomulag þar á milli og við erum að sjá það núna að m.a. eru Norðmenn, sem eru farnir í mjög markvisst samtal og samvinnu við Evrópusambandið, að taka fullan þátt í því núna að koma skotfærum yfir til Úkraínu, m.a. á grunni Evrópusamstarfsins, þ.e. í gegnum evrópska friðarverkefnið. Þeir eru að setja 22 milljónir þangað. Því var ýtt úr vör 2021. Frakkar eru eins og við þekkjum mjög varkárir þegar kemur að öllum löndum utan Evrópusambandsins og vilja bara hafa þennan bransa fyrir sig eða Evrópusambandið en þeir voru tilbúnir til þess að opna fyrir Norðmenn af því þeir eru bæði aðilar að EES og framleiðendur að skotfærum.

Þetta getur, og það hafa nokkrir vinir mínir sem eru þingmenn í norska þinginu sagt, leitt til þess að umræðan um samstarf Noregs og Evrópusambandsins fari aftur meira á dýptina. Það er eitthvað sem ég tel að við Íslendingar eigum að fylgjast vel með. Við megum ekki láta það verða að samsetning ríkisstjórnarinnar leiði til þess að við sitjum eftir á ákveðnum sviðum þegar kemur að heildinni á Norðurlöndum. Ég veit að það er margt verið að gera, en við þurfum að stíga fastar til jarðar og vera ófeimin við það. Hvað erum við á endanum að gera? Við erum að verja okkar vestrænu gildi. Við höfum öll sagt að árásin á Úkraínu af hálfu Rússa sé árás á vestræn gildi. Hún er árás á lýðræði, árás á mannréttindi, árás á ákveðna velferð sem við höfum viljað byggja upp í gegnum alþjóðasamskiptin og Evrópusamskiptin og árás á það sem við viljum gera varðandi frjáls viðskipti. Allt þetta kallar EES-samstarfið og NATO fram.

Viðreisn hefur lagt fram margar tillögur, var m.a. eini flokkurinn sem lagði strax fram tillögu eftir innrásina í Úkraínu um það hvernig við ættum að bregðast við í vörnum, hvernig við ættum að uppfæra hagsmunamat okkar, hvernig við ættum að efla þátttöku okkar innan NATO með borgaralegum framlögum, þjónustu o.s.frv.; líka að meta hvernig það væri að hafa viðvarandi veru herliðs hér á Íslandi, fara í það að ræða það enn frekar. Við í utanríkismálanefnd munum fá það tækifæri í næstu viku að ræða við bæði bandarískar þingnefndir og einhverja innan Pentagon, fara yfir það hvernig við getum skerpt á samstarfi okkar og Bandaríkjanna.

Við höfum líka lagt fram tillögur um það að meta — og það er nú ekki hættulegra en svo, og það er þess vegna sem þetta veldur mér áhyggjum, mér finnst þetta vera svo mikil kyrrstaða. Það er náttúrlega kyrrstaða í öllu hjá þessari ríkisstjórn en líka í utanríkismálum, það er ekki einu sinni nein vinna í gangi hjá ríkisstjórninni um það að meta hvort hagsmunum Íslands sé betur borgið í fjölþjóðasamstarfi, kostir og gallar, eða í tvíhliða samstarfi sem margir telja að sé hin gullna leið. Því er ég ósammála. Ég tel að okkar hagsmunum sé betur borgið í mjög djúpu og markvissu samstarfi eins og er innan Evrópusambandsins. Evrópusambandið er miklu meira en það að ná fram hagvexti og frjálsum viðskiptum. Þetta er grunnþátturinn, Evrópusambandið, til að varðveita frið. Við höfum tvær leiðir og eigum að taka það saman. (Forseti hringir.) Við eigum að vera fullir þátttakendur í NATO, vera með háa og skýra rödd þar eins og við höfum verið, og við eigum að ganga alla leið, treysta þjóðinni til að leiða okkur áfram og vera rödd við borðið af því að við höfum frá svo mörgu að segja. (Forseti hringir.) Okkar rödd er dýrmæt og mikilvæg, hvort sem það er innan NATO eða innan ESB.