Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[18:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Mig langar að nýta þetta tækifæri hér í lok umræðunnar og þakka fyrir í umræðuna í dag sem var, að ég tel, mjög gagnleg, fjölbreytt og málefnaleg. Þótt margt megi ræða enn betur þá held ég að þetta fyrirkomulag, að taka saman starfið í svona greinargóðri og mikilli skýrslu, sé mjög gagnlegt, bæði fyrir þingið og líka fyrir ráðuneytið og málaflokkana — og fyrir söguna, að eiga þá til á einum stað á ári hverju þessa samantekt. Þannig að ég þakka þeim sem tóku til máls og tóku þátt í umræðunum fyrir sinn þátt. Að lokum vil ég þakka starfsfólki utanríkisráðuneytisins, innan lands og annars staðar, fyrir þeirra þátt í þessari vinnu, — enda viðurkenni ég það úr þessum stól að ekki skrifaði ég öll þessi hundruð blaðsíðna — fyrir framúrskarandi vinnu og samantekt. Ég held að við getum heilt yfir verið nokkuð stolt af því hvernig við sinnum þessum störfum sem ólík eru en ég tel mikilvægt að við áttum okkur á því að verkefnin munu bara stækka. Þau eru að verða þyngri og alvarlegri og við erum einfaldlega á þeim stað, hvort sem það er í öryggis- eða varnarmálum, þróunarsamvinnu eða í hinu pólitíska landslagi, þegar kemur að því hvort staðinn verði vörður um alþjóðakerfið eða ekki, þá erum við raunverulega — og ég veit að það er eitthvað sem stjórnmálamenn segja oft en við erum raunverulega á einhvers konar krossgötum. Það er alls ekki sjálfsagt eða sjálfgefið að það fari eins og við myndum vilja og eins og okkar hagsmunir segja til um. Þess vegna kemur það ekki til greina, a.m.k. ekki á meðan ég gegni þessu embætti, og ég lít svo á að það sé pólitískur stuðningur við það, að Ísland skili auðu í slíku. Við eigum alls ekki að skila auðu í neinum þessara málaflokka. Og ekki bara eigum við að standa þessa vakt óbreytta heldur þurfum við að gefa í á öllum vígstöðvum vegna þess að, eins og ég nefndi, það er ekki sjálfgefið að það kerfi sem byggt hefur verið upp frá síðari heimsstyrjöld muni lifa það af sem núna er að gerast og við sjáum ekki fyrir endann á. Sömuleiðis er það heldur ekki sjálfgefið að Ísland njóti þess og Íslendingar að vera fullvalda og sjálfstæð þjóð. Ef við ekki pössum upp á að svo verði áfram þá mun enginn annar gera það fyrir okkur. Þannig að ég fagna því að fá tækifæri til að eiga þessa umræðu hér í dag og geri ráð fyrir að þær verði fleiri, lengri og dýpri á komandi misserum.