154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

farþegalistar.

636. mál
[17:48]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hv. þingmaður spyr: Hver ber ábyrgð á því að sum flugfélög afhenda ekki farþegalista? Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. laga nr. 136/2022, um landamæri, er fyrirtækjum sem annast flutninga farþega til og frá landinu skylt að afhenda lögreglu upplýsingar um farþega og áhöfn. Þessi skylda nær til allra flugfélaga sem fljúga hingað til lands. Brot gegn skyldu þessari varðar refsingu samkvæmt tollalögum, en þar er einnig að finna sams konar ákvæði um skyldu flugfélaga um afhendingu upplýsinga. Samkvæmt 108. gr. a geta tollayfirvöld lagt stjórnvaldssektir á fyrirtæki eða einstaklinga sem brjóta gegn þessari skyldu og geta stjórnvaldssektir sem eru lagðar á einstaklinga numið frá 10.000 til 100.000 kr. Stjórnvaldssektir sem eru lagðar á fyrirtæki geta numið frá 400.000 kr. til 2 millj. kr. Hins vegar er í gildi innan ESB-tilskipunar nr. 2016/681, um farþegaupplýsingar, svokallað, með leyfi forseta, PNR Directive. Þessi tilskipun sem öll aðildarríki hafa leitt í lög sín kveður m.a. á um að flugfélögum sé skylt að miðla upplýsingum um farþega og áhöfn til lögbærra yfirvalda í aðildarríkjum sambandsins. Tilskipun þessi kveður einnig sérstaklega á um hvernig yfirvöldum beri að meðhöndla og vinna farþegaupplýsingar auk þess sem sérstök ákvæði gilda um persónuvernd. Ísland er ekki aðili að tilskipuninni og hefur því efni hennar ekki verið innleitt í íslensk lög. Vegna þessa hafa tiltekin evrópsk flugfélög litið svo á að þeim sé ekki heimilt að afhenda íslenskum stjórnvöldum farþegaupplýsingar samkvæmt þeirra landslögum sem byggja á tilskipuninni, einkum með hliðsjón af lögum um persónuvernd.

Evrópusambandið er sama sinnis hvað þetta varðar og hefur brugðist við með því að gera sérstaka tvíhliða samninga við ríki utan ESB sem heimila evrópskum flugfélögum að afhenda viðkomandi ríkjum þessar upplýsingar. Nú þegar hefur ESB gert slíka samninga við m.a. Bandaríkin og Kanada. Framkvæmdastjórn ESB hefur nú tekið ákvörðun um að gera sams konar samninga við öll Schengen-ríkin sem standa utan ESB, þar á meðal Ísland. Gert er ráð fyrir að samningaviðræður hefjist á næstu vikum eða mánuðum og að samningur verði undirritaður á þessu ári.

Rétt er að árétta að íslensk stjórnvöld fá í dag afhentar upplýsingar um 93% af öllum farþegum sem ferðast hingað til lands og má ætla að það hlutfall nái hátt í 100% í kjölfar þess að ofangreindur samningur við ESB tekur gildi.