135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

stimpilgjald.

548. mál
[18:41]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum um mjög gott mál að mínu viti. Ég vil þó byrja á að lýsa ákveðnum vonbrigðum með að það skuli hafa verið hæstv. fjármálaráðherra sem mælir fyrir þessu máli. Svona getur maður misskilið hlutina, ég hafði talið að hæstv. viðskiptaráðherra mundi mæla fyrir því miðað við blaðaumfjöllun síðustu vikna og mánaða. Vonbrigði mín felast í því að ég sit í viðskiptanefnd og hefði þá verið einn af þeim sem hefði fengið málið til meðferðar en það færðist til hv. þm. Péturs Blöndals og efnahags- og skattanefndar. Ég ákvað því að standa upp til þess að koma skoðunum mínum á framfæri og skilaboðum til þeirrar ágætu hv. nefndar.

Það segir skýrt og klárt í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, um hvetjandi skattaumhverfi, að stimpilgjald í fasteignaviðskiptum verði afnumið á kjörtímabilinu þegar aðstæður á fasteignamarkaði leyfi. Verið er að stíga fyrsta skrefið í því núna. Hv. þm. Ögmundur Jónasson kallaði það fjórðungsskref og það er kannski tímanna tákn að fjórðungur er liðinn af kjörtímabilinu eða svo gott sem. Það er auðvitað spurning hversu langt á að ganga núna og ég hallast að því að það hefði að mörgu leyti verið heppilegra að ganga lengra. Við erum örugglega að horfa til þess hóps sem er í hvað mestri þörf fyrir niðurfellingu á þessu gjaldi en vissulega hafa aðrir hópar í samfélaginu fulla þörf á þessu líka, tekjulægri hópar og fólk sem er með stórar fjölskyldur og þarf að stækka við sig, manni verður hugsað til þeirra, og einnig eldra fólk sem vill jafnvel minnka við sig, og ekki er alltaf samhengi á milli þess að fara úr stórri eign í minni hvað verðmæti varðar.

Það reyndar styður það að það verði skoðað að ganga eitthvað lengra í þessu skrefi. Koma þarf upp ákveðnu eftirlitskerfi samhliða því skrefi sem fyrirhugað er að stíga samkvæmt frumvarpinu. Það kerfi á þá væntanlega að gilda í tiltölulega stuttan tíma ef efndirnar ganga eftir sem ég hef engar efasemdir um, þ.e. að stimpilgjald af fasteignaviðskiptum verði afnumið á kjörtímabilinu.

Ég vildi koma þessu til skila og einnig vil ég taka undir þau sjónarmið sem hafa komið hér fram að flýta eigi gildistöku laganna eins og mögulegt er. Það er ljóst að við horfum á heilmikil áhrif þess á fasteignamarkaðinn og með tilheyrandi afleiðingum fyrir þann iðnað sem að honum stendur. Veltan á þeim markaði hefur bremsast harkalega. Þetta er atvinnuskapandi iðnaður eins og önnur atvinnustarfsemi í landinu og ekki eðlilegt að við skulum bjóða þeim sem þar vinna upp á þær aðstæður að lenda í þessari miklu niðursveiflu sem að hluta til skýrist af þeirri ákvörðun sem búið er að taka en hefur ekki tekið gildi og hefur ekki komið til atkvæða. Ég þekki ungt fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð og er að skoða og velta hlutunum fyrir sér en á sama tíma stígur það ekki skrefið þó að allar aðrar aðstæður bjóði upp á að það verði stigið.

Það eru kannski fyrst og fremst þessi tvenn skilaboð sem ég vil biðja hv. formann efnahags- og skattanefndar að líta til og hv. þingmenn í þeirri nefnd, að litið verði til þeirra möguleika að flýta gildistöku laganna og hvort skynsamlegt geti verið að ganga heldur lengra í þessu skrefi. En ég skil fullvel þau markmið sem eru í frumvarpinu um það að stíga skrefið ekki til fulls á þessari stundu og fara í þær stóru skattalækkanir sem mundu fylgja því.