138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

umhverfismerki á fisk.

251. mál
[15:34]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla mér ekki að gera sérstaka athugasemd við umhverfismerki á fiski. Ég tel að þetta skipti máli en það sem ég hins vegar ætlaði að gera athugasemd við er hvort hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi að einhverju leyti framfylgt umhverfisstefnu síns flokks síðan hann tók við ráðuneytinu. Hvað er að frétta af ýmsum tillögum sem komu fram í bæklingnum „Græn framtíð“ sem flokkurinn prentaði í lit og var ægilega fínn? Hvað er að frétta af t.d. starfshópnum um endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu? Er eitthvað verið að ræða umhverfismál þar innan dyra? Hvernig samrýmist t.d. ákvörðun eða frumvarp ráðherra um skötuselinn umhverfisáherslum ráðherrans og hans flokks? Er eitthvað að frétta af því hvernig ráðherra sér fyrir sér að gera íslenskan sjávarútveg enn þá umhverfisvænni?