149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:42]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Ég held að hv. þingmaður verði að líta til þess að við erum að auka verulega fjármuni inn á framhaldsskólastigið. Og hv. þingmaður sér það líka að fyrsta markmiðið hjá okkur á framhaldsskólastiginu er einmitt að fjölga þeim sem útskrifast úr starfs- og tæknigreinum.

Við höfum verið að beina því að skólunum og verið í samstarfi við þá um stofnkostnaðarliðinn, þ.e. að bæta tækjabúnað og bæta alla aðstöðu á framhaldsskólastiginu og nýta þessa auknu fjármuni einmitt til þess. Þó að það komi jafnvel ekki fram nákvæmlega í áætluninni hvað er verið að gera — þetta eru breiðu línurnar sem koma þarna og forgangsröðun og í hvað við setjum fjármunina — þá þýðir það ekki að við ætlum ekki að bjóða upp á fyrsta flokks nám sem ég tel að sé verið að gera.

Ég held að það sem þurfi líka að gera sé að stórauka samstarfið á milli grunnskólastigsins og framhaldsskólastigsins svo að nemendur átti sig betur á því hvað er í boði og hver námsframvindan er. Við erum auðvitað að huga að fyrsta flokks umhverfi fyrir kennarana okkar og sendum gríðarlega skýr skilaboð með þeim aðgerðum. Kennarafrumvarpið sem kemur inn í þingið á allra næstu dögum miðar að því að með þessu eina leyfisbréfi sé meiri hreyfanleiki á milli leik-, grunn- og framhaldsskólastigsins. Við erum því svo sannarlega að móta fyrsta flokks nám fyrir starfs-, iðn- og verkgreinar í landinu.