135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

tekjuskattur.

515. mál
[17:03]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nú ekki taka undir þær skýringar hæstv. ráðherra á ræðu minni að ég fyndi það að frumvarpinu að verið væri að leggja til að gera of mikið fyrir þá sem í hlut eiga. Mér finnst það nú ekki alveg sanngjörn útlegging á því sem ég var að segja.

Hins vegar held ég að hæstv. ráðherra sé sammála Seðlabankanum í því að til þess að ná tökum á verðbólgunni um þessar mundir, sem er mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar og hæstv. fjármálaráðherra þar með, þarf að beita ríkisfjármálunum. Menn ná ekki tökum á þessum mikla vanda sem við stöndum frammi fyrir ef ríkisfjármálin eru ekki notuð til að vinna gegn verðbólgunni. Það verður ekki gert nema ríkissjóður muni á þeim tíma sem krítískur er í þessum efnum draga meira til sín af fé en hann lætur út. Það verður að vera aðhald og það gerist ekki nema með nettóinnstreymi.

Þetta held ég að sé alveg skýrt og hver maður sem hefur kynnt sér ráðleggingar Seðlabanka Íslands viti að þetta er meiningin. Það er ekki hægt að þræta fyrir að þetta er skynsamleg nálgun á verkefninu.

Það er út af fyrir sig rétt hjá hæstv. ráðherra sem hann bendir á að áhrifin koma fram á þremur árum. Það er út af fyrir sig mikilvægur punktur og gerir málið þar af leiðandi auðveldara. En menn þurfa að átta sig á því hver hinn krítíski tími er, ég held að það sé næsta eina og hálfa árið. (Forseti hringir.) Á þeim tíma þarf ríkisstjórnin að einbeita sér að því að nota ríkisfjármálin til að ná (Forseti hringir.) niður verðbólgu.