141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[12:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir fyrirspurnina. Hann nefnir reyndar ekki að ástæðan fyrir því að Ríkisútvarpið sér fram á auknar tekjur, þegar og ef frumvarpið verður að lögum, er sú að það er virt að með útvarpsgjaldi sem lagt er á gjaldendur í landinu er verið að rukka inn gjald sem á að renna til þeirrar almannaþjónustustofnunar sem uppfræðir almenning um samfélagsleg málefni til að gefa því í raun og veru einhvern grundvöll til að geta tekið meðal annars ákvarðanir um afstöðu til stjórnmálahreyfinga í landinu.

Praxísinn hefur hins vegar verið sá afar lengi að einungis hluti af útvarpsgjaldinu hefur skilað sér til Ríkisútvarpsins þannig að þessi skattlagning á almenning í tilteknum tilgangi hefur ekki skilað sér sem skyldi til almennings. Og það er ein af breytingunum sem menn horfa fram á. Reyndar hef ég lagt áherslu á, og það er einn tilgangur meiri hlutans í afgreiðslu sinni á málinu og þeim breytingartillögum sem koma fram, að tryggja að betra jafnræði verði á þessum markaði, bæði að Ríkisútvarpið geti dafnað, því að það gegnir afar mikilvægu hlutverki í samfélaginu og miklu mikilvægara en mér heyrist hv. þingmaður viðurkenna, og sömuleiðis að einkaaðilar fái aukið svigrúm til að dafna. Við þekkjum það öll, ekki síst þegar hart er í ári eins og verið hefur eftir hrun, að rekstrarumhverfi fjölmiðlanna er mjög viðkvæmt.

Það munu því fara 300–400 milljónir af auglýsingatekjum Ríkisútvarpsins út úr bókhaldi þess. Þær tekjur munu skerðast í samhengi við þessar breytingar en á móti koma auknar tekjur í gegnum útvarpsgjaldið þannig að bæði Ríkisútvarpið og einkamiðlarnir eiga að standa betur eftir og verði betur færir um að sinna almenningi í landinu.