149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:20]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að við verðum að fá betri tölur um þetta og ég vonast til þess að vera komin með þær þegar við hittumst jafnvel í fjárlaganefnd til að fara yfir það og þá get ég svarað betur þessari spurningu.

Mig langar aðeins að víkja að krónunni og benda hv. þingmanni á mjög merkilegt viðtal við Wolfgang Schäuble, fyrrum fjármálaráðherra Þýskalands, sem var tekið af tímaritinu Financial Times og birt 22. mars. Hann er núna forseti þýska þingsins og er einn af höfundum evrunnar. Í þessu viðtali segir fyrrverandi fjármálaráðherra Þýskalands hreinlega: Það er ekki hægt að vera með sameiginlega mynt án þess að vera með pólitískt samband. Þarna hefðum við þurft að gera betur. Þetta eru akkúrat mínar áhyggjur líka. Þess vegna hef ég sagt að evran sé ekki sjálfbær vegna þess að þú verður að vera með pólitískt umboð fyrir myntinni. (Gripið fram í.)