Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[18:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir gott innlegg við þessa umræðu. Ég hjó eftir því að í ræðu sinni orðaði hann það sem svo að hinn svokallaði mönnunarvandi hefði ekki fallið af himnum ofan. Ekki gæti ég verið meira sammála þingmanninum. Það hefur legið fyrir árum saman, og margoft verið bent á það, m.a. af stéttarfélögum sem þar eru undir, hvort sem það eru hjúkrunarfræðingar, ljósmæður, geðlæknar eða aðrir fagmenn í heilbrigðiskerfinu, í hvað stefndi. Það liggur líka fyrir hversu margir eru í námi og hversu margir eru á leiðinni. Mig langar til að inna hv. þingmann eftir því hvort hann sé mér sammála um að hið opinbera, ríkisvaldið, eigi að beita ívilnunum til þess að laða fólk til náms í greinum sem við vitum að við þurfum á að halda, t.d. hvað varðar heilbrigðisstéttir sem starfa innan geðheilbrigðisþjónustunnar, þannig að við náum að vinda ofan af mönnunarvandanum og tryggja þá nýliðun sem þarf að vera, þó ekki sé nema vegna þess að fólk eldist og fer út af vinnumarkaði.

Þegar ég tala um ívilnanir er ég kannski að ræða um eitthvað sem hefur að gera með Menntasjóð námsmanna og/eða launað starfsnám og annað sem gert er í nágrannalöndum okkar. Við þurfum að beita okkur til að fá fólk inn í þetta nám og til að fá fólk til starfa í heilbrigðiskerfinu. Það á að vera þannig að umhverfi, kjör og starfsaðstæður séu aðlaðandi. Ef við náum fleira fólki til okkar þá held ég að það verði auðveldara að manna stöðurnar.