Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[20:09]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Hér ræðum við skýrslu Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðismál. Margar skýrslurnar hafa verið gerðar sem hafa gleymst í kjölfarið á umræðu en þessi er þess eðlis að við getum ekki leyft okkur það. Ég er nú ekki í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem þetta hefur verið mest rætt, ég er heldur ekki í velferðarnefnd þar sem þetta mun örugglega verða rætt, en þetta er mál af þeim toga að ég taldi að ég yrði að segja nokkur orð þó að þetta verði ekki löng ræða, vegna þess að við erum hér raunverulega að tala um vanda, sjúkdóm, sem snertir sennilega öll heimilin í landinu. Ef fólk hefur ekki fundið það á eigin skinni þá a.m.k. á það systkini, foreldra, ástvini, vini sem hafa verið að glíma við þetta, auðvitað misalvarlega, en alvarlegt er þetta þó. Það er auðvitað eitt af því sem við verðum að ræða, því fyrr sem við bregðumst við því meiri líkur eru á að þetta verði ekki að stórum vanda síðar. Auðvitað er þetta hlutur sem fyrst og fremst snýr að lífsgæðum fólks en þetta er líka efnahagslegt mál vegna þess að kostnaðurinn af því að sinna þessu ekki er auðvitað gríðarlega mikill og bitnar þá á öðrum hlutum sem geta svo aftur framkallað vanda af þessum toga.

Það má eiginlega segja að hið raunverulega þjóðarböl í þessum málaflokki sé getuleysi stjórnvalda til að taka á vandanum. Við erum að tala um mjög viðkvæma hluti sem fyrir ekki svo löngu síðan ríktu bara miklir fordómar gegn. Hópur sem glímdi við geðræn vandamál hefur verið skotspónn íslenskrar málnotkunar í gegnum tíðina, vísað er til þessa hóps með niðurlægjandi hætti sem gerir þetta auðvitað enn þá erfiðara.

Síðast en ekki síst er þessi vandi ekki alltaf sýnilegur. Hann sést ekki alltaf utan á fólki og kannski erfitt að átta sig á því hvenær maður þarf að leita hjálpar þannig að það er mjög brýnt að það séu allir vakandi yfir þessu, ekki síst þegar um er að ræða börn eða ungt fólk. Við Íslendingar getum verið dálítið brattir og ýtt hlutunum frá okkur og viljum kannski ekki alltaf horfast í augu við stöðuna eins og hún er. Sennilega þekkja allir það að hafa mætt kunningja eða vini eða vinnufélaga á götu og ávarpsorðið er alltaf: Hvernig hefurðu það? Og svarið er alltaf það sama: Fínt. Það er ekki í boði að segja neitt annað. Auðvitað er allt í lagi að vera dapur, sorgmæddur, reiður eða leyfa sér svona að sveiflast með dagsforminu án þess að vera að bera það á torg. Það þarf hins vegar að taka það býsna alvarlega þegar fólki líður raunverulega illa og það þarf að hafa á tilfinningunni að það geti sagt frá því án þess að því fylgi einhver skömm og það þarf að geta sagt frá því og verið visst um að það sé tekið alvarlega og að fólk komist þá í úrræði, oft mjög væg til að byrja með, sem geta leitt fólk yfir þetta.

Ég ætla nú að tala um kostnað aðeins á eftir þó að hann sé auðvitað aukaatriði eins og ég sagði. Aðalatriðið er auðvitað að fólk búi við góð lífsskilyrði og góða lýðheilsu eins og hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson nefndi áðan. Skýrslan sem við ræðum hérna er hins vegar býsna þungur dómur og þrátt fyrir að einstaka stjórnarliðar hafi talað um að þetta væri nú ekki svo slæmt þá er í rauninni öll hörð gagnrýni í þessum málaflokki slæm og við verðum að taka hana alvarlega. Ríkisendurskoðun nær nú bara á mjög hófstilltan hátt að setja fram kjarnann í því sem við erum að tala um hérna. En það segir á einum stað í þessari skýrslu, með leyfi forseta:

„Vandinn er flestum kunnur en illa gengur að leysa hann.“

Eiginlega væri alveg hægt að nota þessa setningu sem einkunnarorð um stefnu ríkisstjórnarinnar almennt í heilbrigðismálum vegna þess að þar er yfirleitt vandinn flestum kunnur, en það gengur bara illa að leysa hann. Þessi tröllaukni vandi vex með hverju ári en þrátt fyrir það þverskallast stjórnvöld við að takast á við hann með nógu afgerandi hætti þannig að einhverju máli skipti, því að þau annaðhvort tíma ekki að setja meiri peninga eða treysta sér ekki til að breyta verðmætaskiptingunni í samfélaginu og afla þeirra tekna sem þarf til þess að fjármagna málaflokkinn svo það dugi til að aðstoða fólk í neyð. En hér erum við nefnilega að ræða grundvallarmál sem hlýtur að tengjast öllum öðrum málum í samfélaginu. Hvernig ætlum við að fjármagna þetta? Hverjir geta lagt af mörkum? Þar er allt undir; hið almenna skattkerfi, skattlagning og veiðigjöld á stórútgerðina og allt það.

Samkvæmt þessari skýrslu, eins og ég nefndi, eru geðheilbrigðismál landsmanna í talsverðum ólestri og þetta bitnar auðvitað fyrst og fremst á sjúklingunum sem margir fá ekki þá þjónustu sem þeir þurfa, eða hreinlega enga þjónustu, og þurfa að bíða á biðlistum. En þetta bitnar auðvitað líka á öllu umhverfi sjúklingsins. Þetta bitnar á fjölskyldum og ástvinum. Þetta fólk upplifir líka mikla sorg yfir því að horfa á veikindi ástvina og því meiri kannski þegar það hefur verið ljóst frá upphafi að það hefði verið hægt að grípa inn í og aðstoða en biðin eftir fyrsta viðtali tók mánuði eða ár. Þá taka við greiningar og eitthvað annað og svo loksins þegar mögulegt er að bjóða upp á úrræði þá getur það í einhverjum tilfellum verið orðið of seint.

Síðan bitnar þetta síðast en ekki síst á öllu samfélaginu með mjög margvíslegum kostnaði, hvort sem um er að ræða vinnustundir sjúklinga eða of dýr og ómarkviss úrræði, eins og talað er um í skýrslunni reyndar líka. Á einum stað í skýrslunni finnst mér þessi vandi vera settur býsna vel fram, en þar segir, með leyfi frú forseta:

„Fjöldi grárra svæða hefur verið skilgreindur en illa gengur að fækka þeim, m.a. vegna óljósrar ábyrgðarskiptingar innan heilbrigðisþjónustunnar, milli ríkis og sveitarfélaga og ágreinings um hver skuli bera kostnað af viðeigandi úrræðum. Afleiðingarnar eru m.a. þær að fólk fær ekki alltaf viðeigandi þjónustu eða hún er ekki veitt á réttu þjónustustigi. Flæði í kerfinu raskast, erfitt getur reynst að útskrifa fólk í viðeigandi úrræði og það ílengist oft í dýrari úrræðum en þörf er á. Óljós verkaskipting dregur einnig úr skilvirkni og hefur þau áhrif að biðlistar lengjast. Þessi vandi kemur skýrt fram þar sem þörf er á sértækri geðþjónustu sem enginn telur sig eiga að veita. Dæmi eru um að sjúklingar bíði í dýrum úrræðum sem henta þeim illa árum saman. Hagsmunir sjúklinga ásamt hagkvæmnissjónarmiðum kalla á tafarlausar lausnir.“

Þetta er býsna skýrt en ásamt þessum gráu svæðum þá eru bara annars konar vandamál sem blasa við okkur vegna þess að Ríkisendurskoðun talar líka um það að í grunninn sé þetta skilgreint ágætlega. Þetta eru þrjú þjónustustig, það er talað um hver eigi réttinn á þjónustunni, að hún sé veitt á réttum stað og hverju hún ætti að skila. En ofan á þetta gráa svæði bætist mannekla. Ég var hér í morgun að tala við hæstv. fjármálaráðherra sem kannaðist ekki við neina fjárþörf í kerfinu og talaði um mönnunarvanda og áttaði sig ekki á að það er nú mikið samhengi þar á milli. Þannig að það er ýmislegt sem þarf að huga að í þessu.

Síðast en ekki síst langar mig að koma inn á það að í þessu kerfi er ein birtingarmynd ójöfnuðar sem er ekkert voðalega falleg. Hún er sú að það virðist vera að fólk fái misgóða þjónustu og geti fengið misgóða þjónustu eftir því hver efnahagur þess er, eftir því hvaða tegund geðvanda það er að glíma við og eftir því hvar það býr á landinu. Og allt eru þetta risastór verkefni sem við verðum, frú forseti, að reyna einhvern veginn að laga.

Þá er talað um í skýrslunni að það sé ekki neitt formlegt mat á hvernig til tekist hefur með stefnu aðgerðaáætlunar stjórnvalda fyrir árin 2016–2020. Það er náttúrlega grafalvarlegt ef við erum að gera aðgerðaáætlanir og fylgjumst ekki með því hverju þær eru að skila, vegna þess að hvernig eigum við þá að gera næstu aðgerðaáætlanir? Nú er akkúrat ein í vinnslu. Þar var talað um að leggja áherslu á eflingu grunnþjónustu í nærumhverfi, forvarnir og snemmtæka íhlutun en eftirfylgni með öllu þessu var ómarkviss og samráð hefur skort. Það er mat Ríkisendurskoðunar að árangur stefnunnar sé ófullnægjandi, eins og það er orðað í hinu varfærnislega embættismannamáli sem er oft í slíkum skýrslum, þ.e. bara falleinkunn yfir henni og við getum ekki kallað það annað en áfellisdóm yfir stjórnvöldum.

Að lokum, frú forseti, langar mig að ræða aðeins um kostnaðinn sem af þessu hlýst en það hlýtur að vera rannsóknarefni hvað við Íslendingar erum skammt komin þegar kemur að því að kostnaðarmeta nauðsynlega hluti og finna út hinn raunverulega kostnað, að reikna ekki kostnaðinn af afleiðingum þess hvernig vandinn getur orðið og að sinna í staðinn ekki forvörnum eða veita t.d. ódýra sálfræðiþjónustu sem þingið hefur þó ályktað um þegar vandinn er lítill og viðráðanlegur, og mér dettur í samhengi við þetta í hug hvernig við kostnaðarmetum byggingar. Við kostnaðarmetum bara hönnunina og bygginguna og svo látum staðar numið á meðan flestar siðmenntaðar þjóðir í kringum okkur reikna inn hönnun, byggingu og rekstur til 50 ára. Þá er hinn raunverulegi kostnaður fundinn. Það sama eigum við auðvitað að gera þegar kemur að heilbrigðisþjónustu. Við hljótum að þurfa að kostnaðarreikna hvað það hefur í för með sér að grípa ekki til þeirra úrræða sem þarf til að koma í veg fyrir að fólk lendi í vanda.

Þá ítreka ég að lokum, af því að það er lítið eftir af þessari ræðu, að auðvitað þó að peningarnir skipti máli hér og það geti sparað mikið þá erum við fyrst og fremst að tala um fólk en ekki ómerkilega hluti eins og gler, stál eða steinsteypu. Þess vegna þurfum við að umgangast viðfangsefnið út frá því. Við getum ekki, með því að spara í tiltölulega einföldum, skilvirkum og árangursríkum úrræðum, dæmt lítil börn eða ungt fólk í stórkostlegan vanda um aldur og ævi af því að við höfum ekki næga fyrirhyggju.