Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[21:00]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég held að það sé alveg óhætt að segja að það sem fram kemur í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar eru mjög alvarlegar ábendingar. Ég tek algerlega undir það og ég held að við gerum það öll. En það er kannski ekki svo að geðheilbrigðisþjónusta á Íslandi sé á vonarvöl. Það er ekki svo og það er búið að setja töluverða fjármuni núna á allra síðustu árum í að bæta þessa þjónustu. Nú erum við að horfa fram á að það er komin sálfræðiþjónusta á heilsugæslustöðvum, sem er mjög jákvætt. En Ríkisendurskoðun er þarna með ágæta tillögu til úrbóta í sjö liðum sem við verðum að taka alvarlega. Það tek ég heils hugar undir. Ef við ætlum að ná raunverulegum árangri, ef raunverulegur árangur á að nást, þá þurfa geðheilbrigðismál, og ég horfi sérstaklega til barna og ungmenna, að vera viðfangsefni í öllum stefnum stjórnvalda, bæði á vegum ríkis og sveitarfélaga, og það þarf að stuðla að vinnulagi sem einkennist af þverfaglegu og þverstofnanalegu samstarfi meðal allra aðila sem sinna þessum mikilvæga málaflokki. Ég tek heils hugar undir það. Ég fagna þessari skýrslu mjög.

Varðandi mönnunarvandann þá hefur það komið fram, t.d. hjá framkvæmdastjóra Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, að kjaramálin eru hluti af því. Það er fólk með þessa menntun í öðrum störfum. Við þurfum að ná því aftur inn í þennan geira og að sjálfsögðu eigum við að vera hér með menntun sem hæfir þessum málaflokki. (Forseti hringir.) Þá erum við að tala um menntun í hjúkrunarfræði.