154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

rafeldsneytisframleiðsla.

[14:52]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu og mín niðurstaða er sú að þetta er góð umræða en við þurfum að ræða þetta miklu betur, það liggur alveg fyrir. Það er bara fullt af misskilningi hér í umræðunni. Þetta er framtíðin. Já, allt það sem við erum að gera í grænum orkumálum og loftslagsmálum er framtíðarmál. Það tekur langan tíma að búa til græna orku. En það er eins og hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir nefndi hér; ef ríkið ætlar að fara í þessa framleiðslu þá er það gríðarleg áhætta. Það er gríðarleg áhætta. Vilja menn fara í það? Við slepptum því t.d. í vindorkunni, af því að við erum 30 árum á eftir öðrum þar, ríkisrekstri og stuðningi þar. Við njótum góðs af því. Stærstu fyrirtæki heims eru tilbúin til að koma eða voru tilbúin til að koma hingað til þess að hefja þessa framleiðslu en það vantar hins vegar græna orku. Þau töldu og það telja margir að við eigum græna orku en það er langur vegur frá eins og staðan er í dag, þó að hlutirnir séu að hreyfast í rétta átt, og okkur liggur á ef við ætlum að ná þessum markmiðum. Og af því að hér tala menn um útflutning — þú ræður því ekki. Fyrirtæki framleiða rafeldsneyti og það er nægur markaður á Íslandi vegna þess að við erum mjög stór þegar kemur að fluginu, við erum mjög stór þegar kemur að fiskiskipunum og sömuleiðis flutningaskipunum. Núna er íslenskt félag byrjað að búa til tvö skip sem munu verða keyrð áfram á rafeldsneyti. Maersk er sömuleiðis með sex skip í framleiðslu, þetta er ekki lengra frá okkur en það. En það er mörgum spurningum ósvarað og ég myndi ætla að það væri betra að aðrir aðilar en ríkið færu í þennan áhætturekstur. En við þurfum auðvitað að styðja við hann og það hlýtur að vera markmið okkar, ekki bara til að ná árangri í loftslagsmálum heldur líka þjóðaröryggismálum, að við séum að búa til okkar eigið eldsneyti. Við njótum góðs af því. Til dæmis þegar orkukrísan (Forseti hringir.) kom um daginn út af Úkraínustríðinu, þá stóðum við miklu betur en aðrir af því að við eigum íslenska orku. Mér finnst ósanngjarnt og (Forseti hringir.) það stenst enga skoðun að stilla þessu upp þannig, að ná árangri í loftslagsmálum gegn því að við ætlum að ganga á víðerni okkar. Það bara stenst enga skoðun. Og þetta er ekki vandamál, þetta er verkefni. (Forseti hringir.) Það er langur vegur frá að við þurfum að fórna víðernum okkar til að ná árangri í því að búa til græna orku. Það er bara langur vegur frá.