144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

alþjóðleg öryggismál o.fl.

628. mál
[12:21]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þori ekki alveg að fara með það hvort sveitarfélög hafi beinlínis lagst gegn heræfingum en mig grunar þó að þau hafi andæft því en ég þekki það ekki nógu vel til þess að þora að staðhæfa um það hér og nú. Að mínu viti á það hins vegar að vera skýlaus réttur sveitarfélaga, t.d. vegna þess að heræfingar eru mjög mengandi starfsemi. Sveitarfélögin eigi að hafa mjög sterkan rétt til þess að mótmæla því að slík mengandi starfsemi fari fram á landsvæði þeirra.

Mig langar að spyrja hv. þingmann einnig út í 5. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu. Þingmaðurinn sagði í ræðu sinni að ríki sem við megum ekki selja slíka íhluti til geti haslað sér völl innan Evrópska efnahagssvæðisins og þá sé kannski lítið hægt að gera, af því að ég held að við séum alveg sammála því að við viljum ekki selja hluti eða aðstoða ríki til þess að búa til vopn. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann varðandi fyrirtæki sem nú þegar eru starfandi innan Evrópska efnahagssvæðisins og framleiða vopn. Hvað getum við gert gagnvart þeim? Ber okkur ekki siðferðileg skylda til þess að reyna (Forseti hringir.) að koma í veg fyrir að þeim séu seldir íhlutir í vopn?