133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[16:45]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé mikilvægt að á öllum okkar auðlindum, hvaða nafni sem þær nefnast, sé eignarhaldið skilgreint. Ég held að það sé mikilvægt, virðulegur forseti og hv. þingmaður, að eignarhaldið sé skilgreint. Annaðhvort verða auðlindir að vera í einkaeigu, eigu einstaklinga eða lögaðila eins og gildir um ýmsar náttúruauðlindir, eða að þær verða að vera í ríkiseigu, eins og gildir t.d. um þjóðlendurnar. Þær eru í ríkiseigu. Eina auðlindin sem hefur hingað til ekki verið undirorpin eignarréttarákvæðum er sjávarauðlindin. Hún hefur ekki verið það heldur verið skilgreind sem þjóðareign í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða og það ríkir ákveðin óvissa um hvað í því felst. Þess vegna er mikilvægt að þetta sé skilgreint.

Munurinn á þjóðareign og venjulegri ríkiseign er sá að þjóðareignina má ekki láta varanlega af hendi. Það er hægt að gera breytingar sem leiða auðvitað af almannahagsmunum á því hvernig með þjóðareignina er farið.

Þetta er mikilvægt, virðulegur forseti, að komi í lög. Allar eigur eiga með einhverjum hætti að vera með skilgreint eignarhald. Það var hugmynd auðlindanefndar að þetta gæti náð til þjóðlendna, náð til náttúruauðlinda í þjóðlendum með nákvæmlega sama hætti. Þá væri t.d. ekki hægt, innan þjóðlendna, að láta með varanlegum hætti af hendi jarðhita eða vatnsréttindi innan þjóðlendna heldur væri hægt að úthluta nýtingarréttinum til tiltekins afmarkaðs tíma og taka gjald fyrir. (Forseti hringir.) Þetta er grundvallaratriði, virðulegur forseti.