Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

fjöleignarhús.

80. mál
[17:54]
Horfa

Viðar Eggertsson (Sf):

Frú forseti. Það er með mikilli ánægju sem ég kem hér upp. Ég vil þakka flutningsmanni þessa frumvarps, hv. þm. Ingu Sæland, fyrir að leggja það fram enn einu sinni ásamt öðrum flutningsmönnum. Ef frumvarpið nær fram að ganga kemur það í veg fyrir að freki kallinn, af hvaða kyni sem er, geti komið á þeirri gerræðislegu reglu fyrir fjölbýli að þar verði allt gæludýrahald bannað fyrir fullt og allt, svona af því bara. Frumvarpið fjallar um algengustu gæludýr fólks, hunda og ketti, þótt vissulega mætti horfa til fleiri gæludýra en höldum okkur hér við hunda og ketti án þess að allt fari í hund og kött þó að önnur gæludýr séu ekki nefnd. Þessi nefndu gæludýr njóta mikilla vinsælda meðal fjölskyldna í landinu og kom einna sterkast í ljós hversu fólk þarfnaðist mjög að eiga samskipti við gæludýr þegar heilu fjölskyldurnar voru bundnar heima vegna sóttvarna í Covid. Var þá barist um hvern einasta hund og kött sem var á lausu til að flytjast inn á heimili fólks, öllum til gleði. Og þeir sem hafa orðið vitni að heimsóknum heimsóknarhunda Rauða krossins á dvalarstaði eldri borgara, hjúkrunarheimili og dagdvalir, hafa séð hversu mikla gleði þeir leysa úr læðingi, jafnvel hjá þeim sem hafa dögum saman eingöngu horft í gaupnir sér. Sem betur fer hefur okkur auðnast að virkja gæludýr til góðverka svo um munar því við eigum ekki bara að vera dýravinir heldur líka mannvinir og sannir mannvinir eru dýravinir.

Hér vil ég sérstaklega líta til þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu, einbúar, fatlaðir, öryrkjar, eldra fólk. Þetta er fólkið sem svo mjög oft þarfnast að geta átt og annast gæludýr og það getur verið þeim hreinlega til bjargar úr einmanaleika og einangrun og depurð. Ég veit þess dæmi að fólk sem á gæludýr óttast að þurfa að skipta um heimili vegna öldrunar eða veikinda og deila þá húsnæði með öðrum í fjölbýli. Óttinn er á rökum reistur þegar það hefur viðgengist að frekir og þröngsýnir félagsmenn húsfélaga einstakra húsa, jafnvel húsa sem ætluð eru sérstaklega þessum hópi fólks, hafa einfaldlega knúið fram alfarið bann við gæludýrahaldi í húsinu, af því bara. Af því að það er auðveldara að banna alfarið en að skoða hvert tilvik fyrir sig.

Þetta frumvarp er því kærkomið því það tekur fyrir svo gerræðislegar ákvarðanir. Það er sorglegt þegar t.d. eldra fólk hefur þurft að láta af hendi sinn kærasta vin þegar það hefur þurft að flytja í slík hús, aðeins vegna þröngsýni einhverra íbúa sem þar hafa tekið ráðin í sínar hendur. Munum að gæludýr fólks er endalaus uppspretta gleði fyrir eigendur og jafnvel líka nágranna í mörgum tilvikum. Ég þekki þess dæmi á eigin skinni. Ég bjó einu sinni í fjölbýli þar sem var kona sem hafði miklar efasemdir um litla hvolpinn sem fluttist með mér. Nokkrum mánuðum síðar barðist hún eins og brjálæðingur fyrir því að fá að passa þennan hund þegar einhver stund var laus til þess, þannig að hún hafði skipt um skoðun af því að hún hafði kynnst gæludýrinu.

Hundar eru gulltrygging fyrir reglulegum gönguferðum sem eru ómetanleg heilsubót fyrir eldra fólk. Hundar geta þannig stuðla beinlínis að heilsueflingu og um leið unnið bug á einangrun og depurð sem því miður þjáir of marga einstæðinga. Gott gæludýr getur komið í veg fyrir ótímabæra geðlyfjagjöf og aukið útiveru og hreyfingu eigandans. Það eina sem ég staldra við í þessu frumvarpi, hæstv. forseti, er 4. gr. þess, sem hljóðar svo:

„10. tölul. B-liðar 1. mgr. 41. gr. laganna orðast svo: Bann við dýrahaldi ef dýr veldur öðrum íbúum verulegum ama, ónæði og truflunum og eigandi dýrsins neitar að gera bót þar á, sbr. 3. mgr. 33. gr. e, eða ef eigandi dýrs brýtur verulega og ítrekað gegn skyldum sínum og áminningar hafa ekki áhrif, sbr. 4. mgr. 33. gr. g.“

Þessi grein er vissulega mjög til bóta, en þarna á ég erfitt með að sjá hvernig þetta mat verði gert. Hvað er verulegur ami, ónæði og truflanir, eins og segir í frumvarpinu, svo hægt sé að grípa til þeirra aðgerða að banna af 2/3 hluta íbúa hússins að viðkomandi alfarið haldi gæludýr sitt? Þessa spurningu má reyndar einnig setja fram um 1. og 3. gr. þessa frumvarps til laga. Þetta er óskýrt, þetta er huglægt og því vekur það spurningu mína: Er ekki betra að hvert og eitt dýr sé háð samþykki meiri hluta annarra íbúa við innflutning í húsið, frekar en að allt þurfi að fara í óefni, í hund og kött, og þá þurfi að grípa til svo mikils inngrips í líf gæludýrsins og eigenda þess með huglægum rökum um að mælirinn sé orðinn fullur, verulegur ami, ónæði og truflanir og gæludýrinu varpað á dyr? Réttilega væri það kannski eigandinn sem ætti að fara en gæludýrið fylgir eigandanum. Þá er spurning hvernig það er metið og þá hlutlægt. Það væri kærkomið að fá svar við þessu áður en lengra er haldið. En að öðru leyti styð ég þetta frumvarp alveg heils hugar.