154. löggjafarþing — 86. fundur,  18. mars 2024.

Áhrif aukins peningamagns í umferð.

[15:22]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en ég get alls ekki verið sammála því að við getum ekki talað á sama tíma um eignir okkar, eins og Landsbankinn er, og um hagsmuni ríkissjóðs. Hér er verið að tala um tæplega 28 milljarða kr. sem ég hefði talið að væri eðlilegra að við fengjum í hreinan arð inn í ríkissjóð í stað þess að kaupa tryggingafélag. Ég veit ekki betur en að við höfum verið að fá heimildir um daginn fyrir 30 milljarða kr. aukinni lántöku og að við höfum verið að heimila hér 110 milljarða kr. erlenda lántöku fyrir jólin. Ég myndi halda að gullgæsin okkar sem er að verpa gulleggjum ætti að gera það fyrir okkar sameiginlegu þjóðareign frekar en að við séum að fara að gambla hér og skera Kviku banka úr einhverjum skuldaklöfum í einhverju plotti sem ég er ekki enn þá búin að ná utan um. Og hvað Bankasýslu ríkisins varðar þá verð ég að viðurkenna að ég hef ekki mikið álit á henni og ég skil ekki hvað hún er enn að gera að störfum.