141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 229/2012 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

566. mál
[22:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil vara hæstv. ráðherra og hv. þingmenn við því að búa til miklar skuldbindingar á ríkissjóð með því að gefa sér eitthvað um að eitthvað sé í lagi. Þessi tilskipun gengur út á breytingu á þeirri tilskipun sem er grundvöllur neytendalána. Um reynsluna af þeirri framkvæmd segir hér, með leyfi frú forseta:

„Sú reynsla, sem aðildarríkin hafa aflað með framkvæmd tilskipunar 2008/48/EB hefur leitt í ljós að forsendurnar, sem settar eru fram í II. hluta I. viðauka við þá tilskipun, nægja ekki til að reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar á samræmdan hátt og enn fremur að þær eru ekki lengur lagaðar að stöðu viðskipta á markaðnum.“

Fyrir utan þetta inniheldur sú tilskipun sem ég nefndi áðan ekki lán til fasteignakaupa. Núna er verið að vinna að tilskipun og komin fram drög að henni sem er tilskipun Evrópusambandsins um lán til fasteignakaupa. Það er því verið að vinna að nýrri tilskipun um fasteignalán sem er meginhluti lána hér á landi. Það er athyglisvert hvað gerist þegar og ef sú tilskipun nær fram.

Það sem ég held að sé vandmeðfarið hérna lögfræðilega, án þess að ég sé lögfræðingur, er að íbúðalán eru undanskilin í tilskipuninni, en Íslendingar innleiddu þau engu að síður árið 2000. Þá er spurningin hvort gildir.