145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

íslensk tunga í stafrænum heimi.

469. mál
[16:48]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að hefja máls á stöðu íslensku tungunnar. Þá er fyrst til að taka að árið 2014 var skipuð af mennta- og menningarmálaráðuneytinu nefnd sérfræðinga í málvísindum og upplýsingatækni til að gera áætlun um aðgerðir er miða að því að gera íslenskuna gjaldgenga í stafrænni upplýsingatækni og stuðla að notkun hennar á þeim vettvangi. Í desember 2014 skilaði nefndin skýrslu til ráðuneytisins þar sem sett var fram áætlun um aðgerðir og lagt til að fjárfest yrði í íslenskri máltækni með sérstakri langtímaáætlun til tíu ára sem styrkti bæði doktorsnema og einstök tækniþróunar- og innviðaverkefni. Ísland mundi þannig fylgja fordæmi nokkurra Evrópuþjóða sem við berum okkur saman við og byggja upp nauðsynlegan grunn þannig að í lok áætlunarinnar verði íslenskan komin í flokk nágrannatungumála þegar litið er til stuðnings við máltækni. Nefndin telur að á þessu sviði eigi þjóðin ekkert val sé raunverulegur vilji til að gera Íslendingum kleift að halda áfram að nota íslenskuna á öllum sviðum þjóðlífsins.

Máltæknisjóður tók til starfa á síðasta ári á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins og úthlutar úr honum í samræmi við tillögur nefndarinnar. Honum er ætlað að styrkja verkefni á sviði máltækni og stuðla að því að íslenskan sé gjaldgeng í stafrænni upplýsingatækni og notuð á þeim vettvangi. Tilgangurinn er annars vegar að efla og vernda íslenska tungu og hins vegar að auðvelda nýtingu nýrrar samskiptatækni í íslensku samfélagi til hagsbóta almenningi, stofnunum og fyrirtækjum.

Það er rétt sem hv. þingmaður nefndi að á fjárlögum þessa árs eru 30 millj. kr. veittar til máltækniverkefna sem úthlutað verður úr Máltæknisjóði. Styrkir úr sjóðnum verða veittir til ákveðinna vel skilgreindra rannsóknar- og tækniþróunarverkefna og innviðaverkefna á sviði íslenskrar máltækni. Stjórn sjóðsins er skipuð þremur aðilum. Einn er tilnefndur af Samtökum upplýsingatæknifyrirtækja, annar af samstarfsnefnd háskólastigsins og sá þriðji er skipaður af ráðherra án tilnefningar og er jafnframt formaður stjórnar. Þetta vildi ég taka fram í upphafi svars míns, en bæta því við að við vitum að vaxandi áhrif tölvutækni á daglegt líf mun á næstu árum krefjast aðgerða af hálfu stjórnvalda umfram það sem hér er rætt ef við ætlum að tryggja að íslenskan verði gjaldgeng í samskiptum sem byggja á tölvu- og fjarskiptatækni. Það er mat þeirra sem best til þekkja að íslenskunni stafi veruleg hætta af þeirri þróun verði ekkert að gert. Jafnframt felist í því mikil tækifæri fyrir íslenskt samfélag ef hægt er að nota tungumálið til fulls í samskiptum við snjalltæki ýmiss konar.

Nú þegar hefur verið komið upp samráðsvettvangi á grundvelli samþykktar í ríkisstjórn á milli stjórnvalda, atvinnulífs og fræðasamfélags um hvernig skuli halda á þessu verkefni á næstu árum. Nauðsynlegt er að greina og skipuleggja alla verkþætti, tímasetja þá og áætla kostnað sem mun falla til. Þegar ég segi á grundvelli ríkisstjórnarsamþykktar vísa ég til þess að samþykkt hefur verið fjárveiting af hálfu ríkisstjórnarinnar til að veita fjármagn svo hægt sé að ráða tímabundið verkefnisstjóra sem mun sjá til þess að í samstarfi við þá aðila sem ég nefndi áðan, þ.e. atvinnulífs og hins opinbera, verði í framhaldi hægt að grípa til aðgerða með skipulögðum hætti. Það er gert ráð fyrir að þeirri undirbúningsvinnu verði lokið innan sex mánaða frá því að verkefnisstjóri tekur til starfa og mér skilst að það sé innan mjög skamms sem megi ætla að verkefnisstjórinn hefji sín störf. Áætlaður kostnaður við undirbúningsvinnuna nemur allt að 10 millj. kr., 5 millj. kr. eru greiddar af atvinnulífinu og 5 millj. kr. sem fara til verkefnisins koma úr ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar sem ég vísaði til fyrr í svari mínu.