154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

mat á menntun innflytjenda.

729. mál
[18:28]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla bara að þakka fyrir þessa fyrirspurn og þessa umræðu. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt mál. Við höfum orðið vör við það í umræðunni um útlendinga og stöðu innflytjenda á Íslandi að því miður er það hópur sem stendur veikari fæti og er frekar í neðri tekjutíundunum. Það er nauðsynlegt að breyta því til að tryggja jafnræði og að allir eigi jöfn tækifæri. Þá er auðvitað mikilvægt að fólk fái notið þeirrar menntunar og reynslu sem það hefur annars staðar frá. Á sama tíma er það auðvitað þannig að menntakerfið okkar er með því besta í heimi varðandi það hvernig við metum ýmsa menntun og kröfur sem gerðar eru til ýmissa starfsstétta og þar af leiðandi er mikilvægt að þeir sem fá slík réttindi hér á landi hafi sambærilega menntun og er í skólum hér á landi eða á hinum Norðurlöndunum eða í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Þess vegna er mikilvægt að kerfið grípi þessa einstaklinga og ráðleggi þeim hvernig hægt er að fá slík starfsréttindi, halda áfram námi, hvort sem það er í (Forseti hringir.) iðnnámi eða háskólanámi. Ég vil því fagna því sem kom fram í máli ráðherra og við sjáum líka að hæstv. (Forseti hringir.) háskólaráðherra hefur verið að bregðast við og ég hvet ríkisstjórnina áfram á þessari vegferð.