154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

raunfærnimat.

735. mál
[18:37]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er fjallað um raunfærnimat í lögum um framhaldsfræðslu. Í 4. gr. laganna er kveðið á um að ráðherra fari með yfirstjórn málefna framhaldsfræðslu. Í því felist ábyrgð á almennri stefnumótun, stjórnsýslu, stuðningi við þróun og nýsköpun á sviði framhaldsfræðslu sem og eftirliti og mati. Þetta rammar inn það sem snýr að ráðuneytinu og líkt og ég nefndi hér áðan erum við í heildarendurskoðun á stefnunni sem snýr að framhaldsfræðslu og ég á von á því að bráðlega komi út grænbók um það mál.

Málefni Fræðslusjóðs heyra einnig undir málefnasvið ráðuneytisins og hlutverk sjóðsins er skilgreint í lögum um framhaldsfræðslu með þessum hætti:

„… að stuðla að því að til séu viðeigandi námstækifæri fyrir einstaklinga með stutta formlega skólagöngu að baki. Jafnframt er það hlutverk sjóðsins að taka þátt í að skapa skilyrði fyrir því að einstaklingar geti nýtt sér slík námstækifæri.“

Ráðherra er síðan veitt heimild til að semja við til þess bæra aðila um að annast fjárreiður og umsýslu með sjóðnum. Þetta hefur verið í höndum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem er í eigu aðila á vinnumarkaði. Það eru 11 símenntunarstöðvar staðsettar hringinn í kringum landið og þrjú önnur fræðslusetur í eigu aðila á vinnumarkaði sem geta sótt um í sjóðinn, m.a. vegna raunfærnimatsverkefna, og er haldið utan um þá tölfræði í ársskýrslum Fræðslusjóðs. Ef raunfærnimatið er miðað út frá námskrá framhaldsskóla, eins og að klára iðn- og starfsnám, þá fer það mat alltaf fram í samstarfi við framhaldsskólana sem viðurkenna einingar á framhaldsskólastigi til áframhaldandi náms.

Hv. þingmaður spurði líka hverjar væru skyldur framhaldsfræðslu er varða raunfærnimat. Því er að svara að það má segja að framhaldsfræðslukerfið hafi innleitt raunfærnimatsaðferðina á Íslandi allt frá tilkomu laga um framhaldsfræðslu frá árinu 2010. Það er fjallað nánar um framkvæmdina í reglugerð um framhaldsfræðslu. Framkvæmdin er í höndum fræðsluaðila sem sækja um í Fræðslusjóð. Stjórn sjóðsins er skipuð af ráðherra og samkvæmt ársskýrslu Fræðslusjóðs fyrir árið 2022 greiddi hann fyrir 507 einstaklinga en 60 einstaklingar stóðu sjálfir straum af kostnaði sínum þar sem þeir stóðu utan markhóps framhaldsfræðslulaga og 14% þátttakenda voru erlendir ríkisborgarar.

Hv. þingmaður spyr líka hverjar skyldur framhaldsfræðslunnar eru til að leiðbeina fólki sem hefur lokið raunfærnimati um leiðir til að bæta við sig námi til að öðlast starfsréttindi hér á landi. Náms- og starfsráðgjöf er lögboðin þjónusta samkvæmt lögum um framhaldsfræðslu og í ársskýrslum Fræðslusjóðs er haldið utan um tölfræði náms- og starfsráðgjafarviðtala. Árið 2022 var fjöldi viðtala tæplega 9.000 og 24% ráðþega með erlent ríkisfang. Það er gert ráð fyrir að þeir einstaklingar sem nýti sér raunfærnimat fái fleiri en eitt viðtal og er á þann hátt reynt að leiðbeina einstaklingum um næstu skref og framhald raunfærnimatsvinnunnar.

Hv. þingmaður spyr líka hverjar skyldur framhaldsfræðslunnar eru til að bjóða upp á námskeið eða námsleiðir sem fólk sem lokið hefur raunfærnimati kann að vanta til að öðlast starfsréttindi hér á landi. Um 60% árlegrar úthlutunar Fræðslusjóðs fara í að kenna vottað nám en fræðsluaðilar meta hvaða nám þau telja að eftirspurn verði eftir. Samkvæmt Fræðslumiðstöð atvinnulífsins eru vottaðar námskrár nú um 60 talsins. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins er með þjónustusamning við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og eitt meginverkefni fræðslumiðstöðvarinnar samkvæmt samningnum er að afla upplýsinga um markhópinn og skilgreina menntunarþarfir hans. Fræðslusjóður veitir samkvæmt lögunum styrkveitingar til nýsköpunar- og þróunarverkefna í framhaldsfræðslu og sá sjóður er opinn öllum sem þróa vilja nýjungar í framhaldsfræðslunni.

Þetta er svona yfirlit yfir hvert hlutverk ráðuneytisins og stofnana þess er hvað varðar raunfærnimat og síðan annarra þeirra aðila sem koma að þessum málum. En ég tek undir með því sem var rætt hér áðan að þetta er einn liðurinn í því að taka betur á móti innflytjendum.