154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

raunfærnimat.

735. mál
[18:45]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir umræðuna um þetta. Það er nú reyndar ekki oft sem við ræðum þessi mál í þingsal þannig að það er virðingarvert að hv. þingmaður taki þetta upp því að þetta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir samkeppnishæfni Íslands til lengri tíma. Eitt af því sem gríðarlega mikið er rætt um á alþjóðlegum vettvangi og í alþjóðlegu samstarfi vinnumarkaðsráðherra er það sem kallast upp á enska tungu, með leyfi forseta, „reskilling“ og „upskilling“, þ.e. það að geta brugðist við breytingum og fengið þjálfun og áframhaldandi menntun til að sinna störfum sem annaðhvort taka breytingum eða nýjum störfum sem verða til þegar önnur störf eru lögð niður, m.a. vegna stafrænnar þróunar og loftslagsbreytinga og þeirra áhrifa sem þessir þættir hafa á vinnumarkaðinn í dag. Það er gríðarlega mikilvægt að við höfum kerfi sem getur tekið utan um þetta og er eitt af því sem ég hef lagt áherslu á við þá heildarendurskoðun sem er í gangi, að framhaldsfræðslukerfið sé í stakk búið til að taka utan um þessar áskoranir.

Rétt í lokin til að reyna aðeins að mæta þeirri spurningu sem hv. þingmaður setti fram hér í lokin: Sýn mín er að framhaldsfræðslan sé fimmta stoð menntakerfisins. Ég held að við þurfum að setja meiri kraft í hana þó svo að margt sé mjög vel gert. Við erum heppin og það er einstakt að mörgu leyti hér miðað við önnur lönd að eiga allar þessar símenntunarstöðvar úti um allt land. Það er ekki net sem öll ríki búa að og það er mikilvægt að halda utan um það. En (Forseti hringir.) fyrst og fremst að við lítum á þetta sem fimmtu stoð menntakerfisins, hins opinbera menntakerfis, vegna þess að þetta er tæki til jöfnuðar (Forseti hringir.) í íslensku samfélagi og gríðarlega mikilvægt fyrir hópa eins og innflytjendur, fatlað fólk og fleiri.