154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

líkhús og líkgeymslur.

640. mál
[19:23]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Með leyfi forseta vil ég fá að klára þær spurningar sem hv. þingmaður beindi til mín hér í fyrri fyrirspurn. Hv. þingmaður spurði hvernig ráðherra teldi eðlilegast að ábyrgð á rekstri líkhúsa og líkgeymslna væri háttað. Ég hef áður sagt að í mínum huga er lykilatriðið að sá sem sinnir þessari þjónustu hafi áunnið sér traust til þess. Það gildir hvort sem um er að ræða hið opinbera eða einkaaðila. Á þessum tímapunkti er nærtækast að vísa til stefnumótunarvinnunnar sem er fram undan, enda mun sú vinna leiða í ljós hvar er eðlilegast að ábyrgðin liggi hvað þetta varðar.

Ég vil fá að árétta það að staðan í dag í þessum málaflokki er með þeim hætti að 70% þeirra sem deyja hér á landi fara í líkhús Kirkjugarða Reykjavíkur. Þar er pláss fyrir um 80 lík, húsnæðið er sprungið og upp koma aðstæður þar sem líkgeymslan er full. Það er svo að það er gat í lögunum frá því að dánarvottorð er gefið út og þar til viðkomandi er grafinn. Það ber enginn lagalega ábyrgð á því hvað gerist á milli andláts og greftrunar. Þar er galli í lögunum og löggjafanum ber að mínu mati að leita lausnar á því hvernig er best að koma þeim málum í viðunandi horf. Engum ber skylda til að reka líkhús og rekstur líkhúsa er ekki bundinn við lög heldur aðeins kjarnastarfsemi kirkjugarðanna, þ.e. að taka grafir og sinna kirkjugörðum.