138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég man eftir góðri grein eftir Sigurð Líndal prófessor þar sem hann hvatti forsætisráðherra Norðurlandanna til að lista upp skynsamlega og skilmerkilega hverjar þessar alþjóðlegu skuldbindingar Íslendinga væru sem tengdust Icesave-málinu. Það svar hefur ekki borist enn. Stærsti vandi íslensks atvinnulífs í dag er ekki endilega Icesave-málið að mínu mati heldur afstaða ríkisstjórnarinnar til atvinnulífsins. Sá vandi mun ekkert minnka þótt við undirgöngumst þessar kröfur um Icesave-ánauðina eins og ég vil kalla. Höfuðvandi okkar er afstaða ríkisstjórnarinnar sem vill ekki horfast í augu við það að íslenska ríkið er því sem næst gjaldþrota í erlendri mynt. Það er ekki nema ein lausn við þeim vanda og hún er ekki sú að taka meiri erlend lán heldur auka verðmætasköpun og útflutning.

Af því að spurt er hvort ég sé tilbúinn til að freista þess að ljúka því verki sem Alþingi hóf að tilstuðlan ríkisstjórnarinnar hef ég verið fylgjandi því að reyna að leita þeirra leiða sem færar eru til að ljúka því máli. Ég hef engan áhuga á að taka þetta upp frá grunni eins og hv. þingmaður spurði eftir. Þó að vinnan hafi verið um tíma ágætlega skemmtileg held ég að kröftum okkar sé varið betur til annarra verka en þeirra að sitja endalaust yfir þessu máli. Þau tilboð um lausn sem komið hafa bæði frá Bretum og Hollendingum eru algjörlega óviðunandi að mínu mati.

Meginverkefni okkar í dag sem stjórnvalds á Alþingi er að snúa okkur til þess vegar að leiða ríkisstjórnina af þeirri braut sem hún hefur verið, hvetja hana til að stuðla að aukinni verðmætasköpun og afla okkur meiri gjaldeyris.