149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[17:10]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Frú forseti. Þetta mál sem við ræðum í dag ber yfirskriftina dýrasjúkdómar og lætur þannig ekki mikið yfir sér en málið er af stærra taginu. Reyndar er það svo stórt að ekki er ofmælt, eins og hv. síðasti ræðumaður Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði að hér er um fullveldismál að ræða. Það sést þegar af því að stjórnvöld hafa kynnt aðgerðaáætlun sem hefur þau markmið að efla matvælaöryggi, sem er grundvallarþáttur í lífi einnar þjóðar, að tryggja vernd búfjárstofna, og það er sjálf undirstaðan undir landbúnaðarframleiðslunni, og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu, en hún á auðvitað allt undir því að hún geti staðið af sér samkeppni við erlenda keppinauta. Þess vegna er ekki ofmælt að hér sé um fullveldismál að ræða, frú forseti.

Í málinu liggja fyrir umsagnir sem falla kannski ekki síst í tvo flokka. Annars vegar þær sem lýsa miklum efasemdum um að þessi aðgerðaáætlun, sem er í 12 liðum, gangi nógu langt og svo á hinn bóginn að það muni takast að hrinda þeim nógsamlega í framkvæmd á þeim skamma tíma sem er til stefnu vegna þess að frumvarpið að meginstefnu tekur gildi 1. september næstkomandi. Það er ekki langur tími.

Aðgerðaáætlunin er í 12 liðum, eins og áður segir, í þremur meginköflum, þ.e. um lýðheilsu og vernd búfjárstofna, um aukna fræðslu og um bætta samkeppnisstöðu. Ekki er að sjá að það séu neinar ýkjur hjá þeim sem hafa látið í ljósi það álit í umsögnum að sá tími sem fyrir hendi er til að hrinda þeim aðgerðum sem boðaðar eru í framkvæmd, að sá tími sem þarna er ætlaður kunni að vera ónógur.

Ég mun nú, frú forseti, grípa niður í nokkrar umsagnir til að fjalla nánar um einstök atriði. Auðvitað verður að gera ráð fyrir að 2. umr., eftir að málið hefur fengið umfjöllun í nefnd, verði mjög ítarleg, svo mikilsvert sem þetta mál er og stórt í sniðum og snertir víðtæka og djúptæka íslenska hagsmuni.

Fyrir liggur mjög vönduð umsögn frá Bændasamtökum Íslands þar sem þau segja meðal annars að þau hafi ítrekað bent á að vísindaleg rök stjórnvalda í málflutningi sínum fyrir dómstólum um áhættu vegna aukins innflutnings á þeim afurðum sem hér um ræðir hafi ekki verið dregin í efa. Það segir í umsögninni, með leyfi forseta:

„Aðstaða íslensks landbúnaðar til að keppa við erlenda framleiðslu getur ekki talist jöfn og greinin býr yfir ýmiss konar sérstöðu sem auðvelt er að glata. Sérfræðingar hafa bent á að afnám takmarkana á innflutningi, svo sem frystiskyldu, muni þýða verulega aukna áhættu á ýmsum sviðum fyrir heilsu manna og dýra. Matarsýkingum fjölgi og meiri hætta verði á að hingað berist bakteríur sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum.“

Ég held að óumdeilt sé sem í umsögninni segir að engin önnur Evrópuþjóð skimi jafn vel fyrir kampýlóbakter enda árangur Íslands í þeirri baráttu talinn öfundsverður en í Evrópu eru sýkingar af völdum þeirrar bakteríu sem kennd er við kampýlóbakter algengustu matarsýkingarnar.

Öll sagan er auðvitað ekki sögð með þessu vegna þess að sýkingar af völdum baktería sem taka engum sönsum þó að dælt sé yfir þær sýklalyfjum, eru ónæmar fyrir sýklalyfjum, slíkar sýkingar eru taldar eitt alvarlegasta heilbrigðisvandamál í heiminum um þessar mundir. Fram kemur í umsögn að sterk tengsl séu á milli þessa og sýklalyfjanotkunar í landbúnaði. Gögn frá Lyfjastofnun Evrópu, upplýsingar frá 2015, bera með sér að sýklalyfjanotkun í landbúnaði í Evrópu sé allt að 88 sinnum meiri en hér á landi, þar sem hún er mest. Menn sjá því hvílíkur munur er á þeirri framleiðslu sem kemur úr íslenskum búskap og frá a.m.k. sumum af þeim löndum sem hann keppir við.

Það er alþekkt að íslenskir búfjárstofnar hafa búið við langa einangrun. Áðan var minnst á allt að 1.200 ár í því sambandi. Það er líka alveg ljóst að íslenskir búfjárstofnar hafa aldrei komist í snertingu við smitefni margra búfjársjúkdóma sem hafa um langan aldur verið landlægir í Evrópu og víðar.

Ef svo hrapallega tækist til, frú forseti, að hingað bærist smit má telja líklegt, og því er reyndar haldið fram í umsögn Bændasamtakanna, að það geti valdið miklu tjóni með ófyrirséðum afleiðingum. Á það er bent í umsögninni að íslenskur landbúnaður hafi „ekki aðgang að neinum tryggingasjóði vegna tjóns af völdum búfjársjúkdóma eins og er fyrir hendi innan ESB, að frátöldum bótagreiðslum vegna niðurskurðar í sauðfé. Þyrfti ríkissjóður, ásamt bændum að bera slíkar byrðar.“ Og er ekki annað að heyra af máli ráðherra í andsvörum við upphaf þessarar umræðu en að hann sé að mestu leyti sammála þessari fullyrðingu Bændasamtakanna.

Enn fremur er rakið í þessari ágætu og vönduðu umsögn Bændasamtakanna að í aðgerðaáætlun þeirri sem boðuð er af hálfu stjórnvalda í þeim tillöguflutningi sem hér liggur fyrir, að meðal þeirra aðgerða sem vinna skuli að sé að bæta samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar og þar liggja fyrir skýrslur, greinargerð frá prófessor við Háskóla Íslands, Daða Má Kristóferssyni frá 14. janúar 2019, sem unnin var fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Þar er áætlað að árlegt hreint tekjutap bænda vegna breytinga sem frumvarpið felur í sér geti numið 600 millj. kr. á hverju ári, a.m.k. á meðan aðlögun að nýju markaðsjafnvægi eigi sér stað eins og það er lagt upp. Síðan er skýrsla sem þekkt endurskoðunarfyrirtæki og ráðgjafarfyrirtæki, Deloitte, vann fyrir Bændasamtökin vorið 2018. Þar kemur fram að mögulegt tekjutap íslensks landbúnaðar, verði frjáls innflutningur á fersku kjöti, ógerilsneyddri mjólk og gerilsneyddum eggjum leyfður, gæti orðið á bilinu 1,4–1,8 milljarðar kr. Fram kemur að áhrifin yrðu afgerandi mest á framleiðslu nauta,- svína- og alifuglakjöts.

Frú forseti. Það mun reyna mjög á hv. atvinnuveganefnd þegar hún fjallar um frumvarpið, að hún velti við öllum steinum til að ganga úr skugga um hvaða bit geti reynst í þeim varnarviðbúnaði sem aðgerðaáætlun í 12 liðum er ætlað að vera. Sömuleiðis að fjalla um það í hv. nefnd hversu raunhæft er að þær aðgerðir geti komist til framkvæmda og hlotið verkan fyrir gildistökudag laganna 1. september næstkomandi.

Frú forseti. Ég gríp hérna niður í umsögn Landssamtaka sauðfjárbænda, með leyfi forseta:

„Íslendingar eiga gífurleg verðmæti sem felast í einstakri sjúkdómastöðu búfjár á Íslandi. Sú staðreynd og ekki síður mjög lítil og markviss notkun sýklalyfja í landbúnaði í áratugi gerir landbúnaðarframleiðslu á Íslandi einstaka þegar kemur að hreinleika afurða.“

Sjá menn hvílík verðmæti við eigum í íslenskum landbúnaði í því ljósi? Sjá menn hvílík verðmæti geta farið forgörðum ef hér verða slys vegna þess að sjúkdómar rata í íslenska búfjárstofna sem hafa verið í einangrun í hátt í 12 aldir? Þessi áhætta er umtalsverð miðað við það sem verður að álykta, a.m.k. af því sem sumir vísindamenn segja.

Fram kemur í umsögn Landssamtaka sauðfjárbænda, með leyfi forseta:

„Vísindamenn greinir á um hvaða áhrif frjáls innflutningur hráu kjöti muni hafa á þessa stöðu. Eitt er þó ljóst að áhættan eykst taki frumvarpið gildi. Það er líka ljóst að ef við töpum þeirri stöðu sem nú er varðandi dýraheilbrigði munum við aldrei ná því til baka. Það er réttur okkar sem þjóðar að halda hér uppi eðlilegum vörnum (Forseti hringir.) hvað varðar heilbrigði manna og dýra. Þessi staða okkar er öfundsverð, hún er einstök og í raun furðulegt (Forseti hringir.) að við skulum gefast upp við að halda hér uppi eðlilegum vörnum landsins.“

Ég verð að biðja forseta að skrá mig að nýju á mælendaskrá því að ég þarf að fjalla ítarlegar um þetta efni.