149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[20:46]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Það er þannig að allar þjóðir standa með landbúnaði sínum. Landbúnaður og matvælaöryggi er einn af grunnþáttunum í sjálfstæði hverrar þjóðar. Ég vil í síðari ræðu minni ræða hagsmunagæslu ríkisstjórnarinnar, stjórnvalda, í málinu. Ég spurði hæstv. ráðherra utanríkismála að því hvort hann hefði beitt sér pólitískt í málinu á vettvangi Evrópusambandsins. Kvaðst hann hafa hringt í utanríkismálastjóra Evrópusambandsins, Mogherini, og rætt við hana um málið. Ég verð að segja að fyrir litla eyþjóð eins og Ísland eru hagsmunir málsins miklu stærri en svo að eitt símtal dugi til. Við höfum í huga að samningur Evrópusambandsins og okkar, EES-samningurinn, er á ábyrgð utanríkisráðherra og þetta því á hans könnu. Komið hefur fram að mjög erfitt er að fá upplýsingar um það hvað fór fram á þeim fundi. Leitað hefur verið eftir því en ekki gengið.

Það er líka rétt að geta þess að maður setur ákveðið spurningarmerki við það hversu ákveðinn hæstv. utanríkisráðherra var í því að reyna að ná einhvers konar pólitískri lendingu í málinu sem væri okkur hagstæð. Minna má á að hæstv. ráðherra sagði í umræðum á Alþingi árið 2006 að hann sæi enga sérstaka ástæðu til að vernda með tollum eða öðru slíku landbúnað eins og alifuglarækt og svínarækt. Hann sagði jafnframt að hann velti því fyrir sér hvort skynsamlegt væri af okkar hálfu að skilgreina hagsmuni okkar á landbúnaðarsviðinu út frá þeim forsendum.

Það er greinilegt að hæstv. ráðherra hefur fyrir fram ákveðna skoðun á a.m.k. hluta landbúnaðarins eða landbúnaðarframleiðslunni í landinu, sem ég tel ekki heppilegt innlegg í svona hagsmunagæslu. Við blasir að hæstv. utanríkisráðherra hefur viljað rýra og jafnvel fella niður tollvernd í svína- og kjúklingarækt. Ég spyr hvort hann sé þá rétti aðilinn til að halda fram sérstöðu okkar í þeim efnum.

Einnig er áhugavert að skoða nánar umsögn Bændasamtakanna hvað þetta varðar. Þau segja raunar beinum orðum að þau hafi miklar efasemdir um að málið hafi verið sótt af einhverri alvöru gagnvart Evrópusambandinu í viðræðum. Þau segja jafnframt umsögn sinni:

„Það eru gríðarleg vonbrigði að landbúnaðarráðherra skuli gefast upp í baráttunni við að halda uppi rétti okkar Íslendinga til að verja lýðheilsu og íslenska búfjárstofna. Ábyrgð ráðherra er mikil og það er órökrétt að ríkisstjórn skuli á sama tíma tala um að efla íslenska matvælaframleiðslu og kynna til sögunnar aðgerðaáætlun til að auka matvælaöryggi og heimila innflutning á hráu ófrosnu kjöti, eggjum og ógerilsneyddri mjólk. Frumvarpið gengur þvert á þau yfirlýstu markmið þjóða að fækka sjúkdómstilfellum sem berast með matvælum. Íslendingar eiga hreina og heilbrigða búfjárstofna og eru lánsamir að því leyti hversu matvælasýkingar eru fátíðar hérlendis. Það er beinlínis skylda okkar að viðhalda þeirri góðu stöðu.“

Ég tek heils hugar undir það, frú forseti, að við höfum því miður ekki nógu góðar upplýsingar um hversu öflug hagsmunagæslan var af hálfu utanríkisráðuneytisins í málinu og er full ljóst að það þarf að liggja fyrir.

Að lokum vil ég vitna í Ólaf Jóhannesson, fyrrverandi forsætisráðherra, sem sagði í landhelgismálinu að samkomulag væri útilokað (Forseti hringir.) nema litið yrði með fyllstu sanngirni á aðstæður okkar. Ég tel þau orð svo sannarlega eiga við í dag í þessu stóra máli.