131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Málefni Ríkisútvarpsins.

[15:29]

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Sú umræða sem hér á sér stað endurspeglar að mínu mati þann vanda sem Ríkisútvarpið á við að etja. Því er haldið fram að ráðning nýs fréttastjóra hafi verið pólitísk en hins vegar eru ekki bornar brigður á að löglega hafi verið staðið að ráðningunni, enda í samræmi við þau lög sem útvarpsráði er ætlað að vinna eftir og fulltrúar allra stjórnmálaflokka í ráðinu hafa gert í áratugi, líka fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna hér á þingi.

Að sínu leyti má taka undir það að ráðningin sé pólitísk í þeim skilningi að í stöðu fréttastjóra var ráðinn maður sem pólitískir fulltrúar í útvarpsráði mæltu með og fulltrúar stjórnarandstöðunnar lögðu, a.m.k. þegjandi, blessun sína yfir enda greiddu þeir hvorki atkvæði á móti henni né lögðu til að annar umsækjandi yrði tilnefndur. Ég fæ hins vegar ekki séð að ráðningin hafi verið pólitísk í þeim skilningi að fulltrúar stjórnarflokkanna í útvarpsráði hafi verið að koma sínum manni í stól fréttastjóra útvarpsins eins og haldið hefur verið fram. Ekki er maðurinn sjálfstæðismaður, það er alveg á hreinu, og eftir því sem ég best veit er hann heldur ekki framsóknarmaður.

Vandi Ríkisútvarpsins er sá að meðan það er í eigu ríkisins og pólitískt skipað útvarpsráð hefur með höndum mannaráðningar innan stofnunarinnar verða slíkar ráðningar alltaf pólitískar í þeim skilningi sem ég hef hér rakið. Þá skiptir engu máli hver er ráðinn. Hefði einhver hinna fimm umsækjenda sem menn telja að gengið hafi verið fram hjá í þetta skiptið verið ráðinn í hlutverk fréttastjóra hefði slík ráðning einnig verið pólitísk. Það helgast einfaldlega af því lagaumhverfi sem stjórnendum stofnunarinnar er gert að vinna eftir.

Herra forseti. Að mínu mati hefur rekstrarumhverfi Ríkisútvarpsins, eignarhald þess og stjórnskipulag gjörsamlega gengið sér til húðar. Það er barn síns tíma sem verður að breyta. Sjálfur hef ég verið talsmaður þess að gerðar yrðu róttækar breytingar á Ríkisútvarpinu og mælt fyrir frumvarpi þess efnis. Ég hlýt að fagna því að á næstu dögum muni hæstv. menntamálaráðherra leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um Ríkisútvarpið sem ætti að leiða til þess að umræður eins og þær sem hér eiga sér stað í dag muni heyra sögunni til.