138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

424. mál
[16:52]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 741, sem er 424. mál, en um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta er samið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu en með því eru lagðar til tilteknar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Í fyrsta lagi er lagt til að lögfestar verði breytingar á 10. gr. laganna sem fjallar um úthlutun byggðakvóta. Annars vegar er þar um að ræða breytingar til að árétta heimildir ráðherra til að setja sérstakar takmarkanir á úthlutun byggðakvóta í einstökum byggðarlögum ef hann telur tilefni til þess, t.d. að ekki sé heimilt að úthluta aflaheimildum til skipa sem fluttar hafa verið meiri aflaheimildir frá en þær heimildir sem fluttar hafa verið til skipanna á tilteknu fiskveiðiári. Með því er talið að markmiðum fiskveiðistjórnarlaganna um að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu verði betur náð. Hins vegar er þar gert ráð fyrir að lögfest verði ákvæði um heimild til að flytja byggðakvóta á milli fiskveiðiára. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið telur nauðsynlegt að hafa heimild til að geta flutt úthlutun byggðakvóta á milli fiskveiðiára þar sem framkvæmd úthlutunarinnar getur verið mjög umfangsmikil, margar stjórnsýslukærur, ýmis önnur mál sem berast ráðuneytinu og fjölmörg önnur verkefni sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið þarf að framkvæma vegna úthlutunarinnar. Þá er með síðastgreindu ákvæði m.a. stefnt að því að bregðast við áliti umboðsmanns Alþingis frá 14. desember 2009, í máli nr. 5379/2008, þar sem talið var að lagaheimild hefði ekki verið fyrir hendi til að það gæti sett slík ákvæði í reglugerðir nr. 718/2007 og 1192/2007.

Í öðru lagi er lagt til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði með nýju ákvæði til bráðabirgða við sömu lög veitt tímabundin heimild til að grípa til tiltekinna aðgerða sem gildi í tvö og hálft fiskveiðiár, þ.e. það sem eftir er af fiskveiðiárinu 2009/2010 og á fiskveiðiárunum 2010/2011 og 2011/2012. Samkvæmt því er gert ráð fyrir að þegar um er að ræða umtalsverðan hluta aflaheimilda í viðkomandi sveitarfélagi eða byggðarlagi, a.m.k. fimmtung eða meira, og ætla má að framsal eða ráðstöfun þeirra út fyrir svæðið hafi veruleg neikvæð áhrif í atvinnu- og byggðalegu tilliti, geti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra bundið meðferð aflaheimilda ákveðnum skilyrðum. Hann getur líka ákveðið að óheimilt sé að framselja eða ráðstafa með öðrum hætti aflaheimildum úr einstökum sveitarfélögum eða byggðarlögum sem tilheyra gjaldþrota einstaklingum og fyrirtækjum eða einstaklingum og fyrirtækjum sem fengið hafa heimild til greiðslustöðvunar. Einnig er þar kveðið á um tiltekna tilkynningarskyldu af hálfu fyrirsvarsmanna þrotabúa og aðila sem fengið hafa heimild til greiðslustöðvunar og jafnframt eigenda og útgerðaraðila fiskiskipa, eins um frestun ráðherra til að tilkynna um að sala sé óheimil.

Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er forsaga síðastgreinds ákvæðis til bráðabirgða í frumvarpinu sú m.a. að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur undanfarna mánuði fylgst með fjárhagsstöðu fyrirtækja í sjávarútvegi og hefur í því skyni verið rætt við yfirmenn í bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum til þess að upplýsa stöðuna. Meðal þess sem rætt hefur verið er hugsanleg tilfærsla aflaheimilda, komi til gjaldþrots útgerða. Fyrir liggur að byggðarlög víða um land eiga allt sitt undir sjávarútvegi og yrði staða margra mjög erfið ef aflaheimildir flyttust frá sveitarfélögum eða byggðarlögum, komi til gjaldþrots eða annars konar eignauppgjörs einstakra fyrirtækja. Ljóst er að það getur haft ófyrirsjáanleg áhrif á stöðu vissra byggðarlaga. Að mínu mati hefur komið fram skilningur hjá bönkum og fjármálafyrirtækjum á mikilvægi þess að sporna gegn tilfærslum á aflaheimildum frá byggðarlögum, ég tala nú ekki um af fyrrgreindum ástæðum og við þær kringumstæður sem við búum við nú um stundir. Ég gerði grein fyrir þessum sjónarmiðum í minnisblöðum til ríkisstjórnarinnar 22. september 2009 og aftur 15. janúar 2010, og með fréttatilkynningu frá ráðuneytinu. Þar kom fram að æskilegt væri að stjórnvöld hefðu íhlutun um þessa þróun, t.d. með því að lögfesta tímabundin ákvæði sem heimila ríkinu að grípa inn í framsal og aðrar ráðstafanir aflaheimilda þegar útlit er fyrir að sjávarbyggðir sem alfarið eða að stærstum hluta byggja á sjávarútvegi, missi frá sér aflaheimildir vegna gjaldþrota útgerða í þeim mæli að til vandræða horfi og að það samrýmist ekki 1. gr. laga nr 116/2006 um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Með bréfi dags. 18. nóvember 2009 skipaði ég vinnuhóp sem skipaður er fulltrúum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, efnahags- og viðskiptaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og forsætisráðuneytis til að fjalla um framangreind málefni. Vinnuhópurinn er enn að störfum og mun skoða þessi mál áfram. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu hafa hins vegar borist upplýsingar um að ýmis sjávarútvegsfyrirtæki séu nú þegar í miklum greiðsluvanda sem líkur séu á að geti valdið röskun á tilflutningi á aflaheimildum á milli byggðarlaga verði ekkert að gert. Ljóst er að afleiðingar af slíkri röskun geta einnig orðið miklar, m.a. áhrif á aðra atvinnustarfsemi í þeim byggðarlögum og búsetu o.fl. Ég held að allir séu sammála um að ef þetta mundi gerast gæti það orðið mjög alvarlegt fyrir einstök byggðarlög. Brýnt er því að í lögum séu fyrir hendi heimildir við þessar aðstæður sem nú eru uppi til þess að grípa til og koma í veg fyrir að meiri háttar tilfærsla aflaheimilda verði á milli byggðarlaga.

Þá kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að rétt þyki að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið leiti álits Byggðastofnunar og viðkomandi sveitarfélags við framkvæmd ákvæðisins og mat á því hvort uppfyllt séu skilyrði samkvæmt því en það er reyndar ekki tekið sérstaklega fram í frumvarpinu. Ekki verður því um að ræða lögbundnar umsagnir viðkomandi stjórnvalda heldur frjálsa álitsumleitan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Síðan er auðvitað ekkert sem kemur í veg fyrir að hagsmunaaðili komi fram með sjálfstæðar ábendingar til ráðuneytisins. Ég vil árétta að með aflaheimildum samkvæmt ákvæðinu er bæði átt við aflahlutdeildir og aflamark.

Við samningu þessa frumvarps hefur verið lögð til grundvallar sú staðreynd að mörg íslensk sjávarútvegsfyrirtæki geta verið nú í greiðsluerfiðleikum vegna of mikilla skulda. Þessi staða getur leitt til gjaldþrota hjá ýmsum fyrirtækjum en það getur síðan leitt til þess að aflaheimildir færist úr byggðarlögum og sveitarfélögum ef ekkert verður að gert. Úrræði þau sem lögð eru til samkvæmt frumvarpinu eru hugsuð til skamms tíma eða þar til gera má ráð fyrir að erfiðleikar í greininni séu úr sögunni, a.m.k. vegna þeirra efnahagsástæðna sem við nú erum að glíma við. Því er frumvarpið fyrst og fremst hugsað til þess að vernda stöðu byggðanna í landinu með tilliti til atvinnu þannig að ekki verði byggðaröskun.

Á fylgiskjali með frumvarpi þessu er að finna kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið og læt ég nægja að vísa þangað. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar sem fylgir frumvarpinu en þar er ítarlega gerð grein fyrir efni þess.

Virðulegi forseti. Ég tel að þau úrræði sem lögð eru til í þessu frumvarpi séu í samræmi við ákvæði fiskveiðistjórnarlaga nr. 116/2006, þar sem fram kemur að nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Þá kemur þar fram að markmið laganna sé m.a. að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu. Að mínu viti er útilokað með öllu að samfélagið í heild sinni sætti sig við miklar kvótatilfærslur í kjölfar bankahrunsins og í sumum tilvikum vegna hreinna óskyldra fjármálalegra meðferða, kvótatilfærslur sem sagan segir að geti svipt heilu byggðarlögin lífsafkomu sinni með tilheyrandi eignarýrnun og afkomubresti hjá almenningi. Það er því auðvitað í sterkri von og trú á að ekki komi til þess að beita þurfi þessum heimildum og að fjármálastofnanir og aðrir sem hlut eiga að máli átti sig á hinni samfélagslegu ábyrgð sem allir þurfa að bera. Geri þessir aðilar það hins vegar ekki eða það er nauðsynlegt að grípa þarna inn í, mun ekki standa á mér að beita þessum heimildum til hins ýtrasta, því heiti ég hér í þessu máli.

Ég vænti þess að með frumvarpi þessu verði unnt að koma í veg fyrir meiri háttar tilfærslur aflaheimilda á milli byggðarlaga af þeim orsökum sem ég hef hér tilgreint og með því verði jafnframt unnt að ná þeim framangreindu markmiðum sem koma fram í 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna um að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu.

Herra forseti. Ég hef nú mælt fyrir þessu frumvarpi og óska eftir að að lokinni umræðunni verði því vísað til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.