144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[21:39]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að þessi orð hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur heyrist vel innan Sjálfstæðisflokksins. Staðreyndin er sú að við stöndum frammi fyrir upplýsingatæknibyltingu þar sem fólk tekur þátt í samfélagsumræðunni, það tekur þátt í pólitík, það tekur þátt í að taka ákvarðanir. Fólk sættir sig ekki lengur við að mega bara koma að ákvarðanatöku um stjórn landsins á fjögurra ára fresti, það gerir það greinilega ekki lengur, það vill meira, enda vill mikill meiri hluti landsmanna, í kringum 80% fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur. Þetta er klárlega slíkt mál sem fólk vill greiða atkvæði um. Fólk vill þjóðaratkvæðagreiðslur jafnvel þótt það vilji ekki ganga í Evrópusambandið. Jafnvel þótt fólk vilji ekki endilega halda áfram með aðildarviðræðurnar vill það samt fá að kjósa um hvort við höldum áfram með þær.

Eins og hv. þingmaður segir réttilega, segir í stjórnarsáttmálanum, með leyfi forseta:

„Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið …“

Svo segir aðeins neðar, með leyfi forseta:

„Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Talað var um að gert yrði hlé, ekki að viðræðunum yrði slitið, heldur að gert yrði hlé. Það er loforð eftir kosningarnar í stjórnarsáttmálanum sem stjórnarþingmenn gerðu, þar er sagt að gera eigi hlé. Og menn geta reynt að vera með orðhengilshátt: „Við ætlum að gera hlé, við megum ekki líka slíta“, en kommon, það er bara algjör orðhengilsháttur. Þarna var sagt að gera ætti hlé og ekki að halda viðræðum áfram nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég vona því að orð hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur heyrist vel innan Sjálfstæðisflokksins. Upplýsingabyltingin er komin til að vera. Það þýðir að til verða fleiri smærri flokkar og Sjálfstæðisflokkurinn þarf alvarlega að hugsa um að það getur kostað þá (Forseti hringir.) nokkur prósentustig ef einn flokkur vex vegna óánægju annars flokks.