149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[15:48]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég geri ráð fyrir því að sú hæstv. ríkisstjórn sem vann í þessum málum á árabilinu 2000–2006 hafi haft lýðheilsusjónarmið í hávegum og treysti því, og sé það raunar á gögnum, að menn séu að reyna að byggja upp stöðu okkar á hinum ýmsu sviðum miðað við þá þekkingu sem fyrir var á málinu á þeim tíma.

Þegar árið 2005 var rætt um viðbótartryggingar vegna salmonellu, þó svo að við höfum ekki fengið þær fyrr en nú í janúar árið 2019. Með sama hætti höfum við heldur ekki haft, hvað á ég að segja, nægilega fullkomnar upplýsingar um okkar eigin stöðu, samanber þessar upplýsingar sem ég nefndi sem Matvælastofnun var að setja fram um sýklalyfjaónæmar bakteríur sem fylgja okkar búfjárstofnum.

Það er hins vegar algerlega óumdeilt að búfjársjúkdómar hjá okkur eru á allt öðru stigi en í Evrópu. Við erum einungis með rétt um 20 búfjársjúkdóma sem herja á okkar búfénað en þeir eru á annað hundrað, 120 eða rúmlega það, í Evrópu. Þetta er staða sem við ætlum að verja. Ég vil leggja áherslu á það hér að neysla á landbúnaðarafurðum er í öllum meginatriðum meinholl. Efasemdir fólks varðandi heilnæmi þeirra, að teknu tilliti til einhvers konar sýkinga — því getur fólk reynt að verjast með því að vanda sig við suðu eða steikingu. Ég veit að sumum líkar kjötið betur hálf hrátt. Ég er ekki á þeim stað sjálfur, vil frekar hafa það ágætlega kokkað.