149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[18:34]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni ræðuna. Hér fjöllum við um frumvarp og tilheyrandi mótvægisaðgerðir, sem ég lít svo á að þingið þurfi í meðförum sínum að kanna hvort það nái að tryggja, að hér muni áhætta eða áskoranir fyrir lýðheilsu Íslendinga ekki aukast við þær breytingar sem fylgja frumvarpinu og eins áhætta fyrir búfjárstofna í landinu. Ég tel þetta hvort tveggja vera mjög mikilvægt og í sjálfu sér stórmál, en mál sem hægt er að mæta ef rétt er staðið að aðgerðum.

Það er ein mótvægisaðgerð sem mig langar sérstaklega að spyrja hv. þingmann út í, þ.e. áhættumat. Ég tel að eitt af því sem hefði í rauninni átt að vera búið að fara í en sé lykilatriði til framtíðar að farið verði í sé alþjóðlega viðurkennt áhættumat sem þær alþjóðastofnanir sem vinna með matvælaeftirlit og matvælaöryggi á heimsvísu hafa sett fram hvernig á að vinna. Það er lykillinn að öllum okkar forvörnum til framtíðar.

Spurning mín til þingmannsins er: Ef við hefðum niðurstöður úr slíku áhættumati, stæði ekki öll umræða við Evrópusambandið og innan Evrópska efnahagssvæðisins á traustari grunni? Þá hefðum við upplýsingar um raunverulega stöðu, þar sem við stöndum raunverulega fæti framar, og eins um hvað við gætum fengið út úr ýmiss konar greiningu á því (Forseti hringir.) hvar áhættan liggur í raun.