151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

Þingsköp Alþingis.

80. mál
[16:40]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég á sæti í forsætisnefnd sem flytur þetta frumvarp. Ég get alveg haft skilning á ýmsum sjónarmiðum sem heyrst hafa í umræðunni. Ég átta mig vel á því að við erum kosin á þing af þjóðinni og þar af leiðandi eru þingflokkar misjafnir og kynjahlutföllin geta verið mjög mismunandi í þingflokkunum. Þar af leiðandi kann oft að vera ógjörningur og erfitt að horfa til þess sem hér er verið að mælast til. Það breytir ekki þeirri staðreynd að það skiptir máli að sjónarmið beggja kynja eða allra kynja heyrist. Það er mikilvægt. Ég trúi því í einlægni að ef einungis væru konur utan af landi í fjárlaganefnd værum við með síðri fjárlaganefnd en ef við hefðum bæði kynin og fólk bæði af höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni.

Ég er með öðrum orðum að segja að ég held að þessi fjölbreytileiki skipti máli. Það er bara þannig. Og þó að við séum ekki öll eins, og ég er alls ekki eins og allar mínar kynsystur, þá er það samt sem áður þannig að sjónarmið beggja kynja eða allra kynja skipta máli. Það er auðvitað margbúið að sýna fram á það að fyrirtækjum eða samfélögum vegnar betur ef kraftar allra eru nýttir. Það á sérstaklega við um kraft beggja kynja.

Virðulegur forseti. Ég vildi bara koma hingað upp og lýsa þessari skoðun minni. Ég flyt þetta frumvarp og það segir hver afstaða mín er til þessa máls. Ég hef alveg skilning á þeim sjónarmiðum sem hér hafa komið fram um þetta. Þetta kann að vera flókið og sumum kann að finnast ankannalegt að við setjum í þingsköp, sem eru í raun lög, einhver slík tilmæli. Ég get alveg borið virðingu fyrir þeim sjónarmiðum. Það breytir ekki þeirri staðreynd að sannfæring mín snýr til þess að jafnrétti kynjanna skipti miklu máli og þar af leiðandi sé eðlilegt að mælast til þess að þingflokkar sem sæti eiga á Alþingi horfi til jafnréttis kynjanna þegar kemur að því að skipa í nefndir. Með því er ég auðvitað ekki að segja að það eigi bara að horfa til þess og auðvitað kunna bakgrunnur, menntun og reynsla fólks jafnframt að hafa ráðandi áhrif áfram.