151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

háskólar og opinberir háskólar.

536. mál
[18:11]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir nefndarálitið og allsherjar- og menntamálanefnd fyrir að fjalla um þetta mikilvæga frumvarp. Ég er því svo sannarlega hlynnt. Ástæðan fyrir því að ég tek hér til máls er sú að ég hef sjálf flutt alla vega í tvígang, jafnvel í þrígang, sambærilegt frumvarp, þ.e. markmiðin eru þau sömu. Hæstv. ráðherra Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þá hv. þingmaður, flutti reyndar frumvarp á undan mér. Málið sem ég flutti er nr. 269 á þessu þingi og er í allsherjar- og menntamálanefnd og ég geri auðvitað ekki ráð fyrir því að það verði afgreitt þaðan með afgreiðslu á því stjórnarfrumvarpi sem hér liggur fyrir en ég vildi bara geta þess hér vegna þess að þar var einmitt markmiðið að það stæði ekki í lögunum að það væri krafa um stúdentspróf. Ég held að það sé bara svo mikilvægt að við horfum á fjölbreytileika í menntun og reynslu og það er að mínu viti ekki í takt við tímann að við séum að tilgreina það í lögum frá Alþingi að háskólum, hvort sem þeir eru opinberir eður ei, sé í raun óheimilt að taka á móti nemendum nema þeir hafi klárað stúdentspróf. Það hafa reyndar verið einhver undanþáguákvæði og margir kannast við einhverjar aldursreglur og þess háttar. En ég held að það sé mjög mikilvægt að þessu sé breytt og háskólarnir ákveði sjálfir hver inntökuskilyrðin eru inn á brautir þeirra. Manni dettur einna helst í hug iðnnámið. Við höfum í gegnum tíðina verið að tala um hversu mikilvægt það er og við þurfum alls ekki á því að halda að allir fari í háskóla. En það getur verið ákveðinn kostur, bæði fyrir einstaklinginn sjálfan en ekki síst fyrir samfélagið, að aðili sem hefur stundað iðnnám og tekið próf í sinni iðngrein og starfað við hana jafnvel í einhvern tíma eigi greiða leið inn í háskóla síðar meir. Ég held að það geti verið mikill akkur í því og í rauninni ankannalegt að gera kröfu um það að fólk sem hefur góða menntun og reynslu á bakinu þurfi að fara að skila einingum í einhverjum öðrum fögum til að komast inn í nám sem það hefur kannski fulla burði til að sinna og stunda. Þannig að ég bara fagna því að þetta mál sé að klárast þó að það hafi ekki verið frumvarpið sem ég lagði fram. Þetta nálgast verkefnið með aðeins öðrum hætti en ég held að þetta sé mikilvægt mál sem við ættum að samþykkja.