140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

umræða um stöðu ESB-viðræðna.

[11:22]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég beini orðum mínum til hv. þm. Magnúsar Orra Schrams og vil að gefnu tilefni grípa til varna fyrir hæstv. forsætisráðherra. Ég hef ekki hikað við, af góðri ástæðu, að gagnrýna hæstv. forsætisráðherra en að koma hér upp og segja að ekki sé hægt að eiga djúpa umræðu við hæstv. forsætisráðherra er náttúrlega ekki maklegt. [Hlátur í þingsal.]

Það má ýmislegt segja um hæstv. forsætisráðherra en þetta er of langt gengið. Ég hvet hv. þingmenn til þess að huga aðeins að orðum sínum og mér finnst jafnvel að virðulegur forseti hefði átt að grípa inn í þegar svona langt er gengið í gagnrýninni. En ég tek hins vegar undir það að það sýnir ekki mikla virðingu fyrir þinginu að ekki sé orðið við því þegar hv. þm. Jón Bjarnason fer fram á þessa umræðu, eðlilega, það er bara mjög alvarlegt mál.