141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég var eiginlega að gera athugasemd við þau ummæli hv. þingmanns að sjálfstæðismenn vildu engar breytingar vegna þess að ég hef flutt um það breytingu ásamt fjölda sjálfstæðismanna. Mér fannst það bara ekki vera rétt sem hv. þingmaður sagði. Spurningin er: Hvað gerist núna? Mér sýnist að þetta vera síðasta umræðan um málið og að svo verði það saltað. Það þykir mér miður. Ég hefði viljað sjá breytingar á 79. gr., og ég á eftir að ræða það á eftir, og hugsanlega á einhverju öðru sem menn gætu verið sammála um, til dæmis það að nefna Hæstarétt í stjórnarskrá. Hæstiréttur kemur ekki fyrir í núgildandi stjórnarskrá. Ég hefði alla vega viljað nefna hann því að hann er greinilega nokkuð sem allir geta verið sammála um. Allir.

Spurningin er hvort menn geti náð saman um einhvern samnefnara, um eitthvað sem allir geta verið sammála um. Þannig eiga breytingar á stjórnarskrá að vera, að menn séu sammála því sem verið er að gera, jafnt þing sem þjóð. Þess vegna finnst mér gott frumvarpið sem ég flutti um að tveir þriðju hlutar þingmanna þyrftu að vera sammála og einnig að helmingur allra kjósenda þurfi að samþykkja mál. Þá væri sæmileg sátt um frumvarpið bæði hjá þingi og þjóð. Þannig vil ég sjá það.